Erlent

Rússar til í að skoða nýtt og umfangsmeira samkomulag

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands. EPA/SERGEI CHIRIKOV
Yfirvöld Rússlands væru tilbúin til að taka nýtt og umfangsmeira kjarnorkuvopnasamkomulag frá Bandaríkjunum til skoðunar. Fleiri ríki gætu verið aðilar að slíku samkomulagi sem gæti komið í stað INF-sáttmálans svokallaða sem Bandaríkin og Rússar hafa slitið. Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, segir þetta koma til greina.

Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hafa lengið sakað Rússa um að brjóta gegn INF-sáttmálanum, sem snýr að banni við notkun skamm- og meðaldrægra eldflauga. Því hafa Rússar þó hafnað.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur einnig gefið í skyn að honum hafi þótt sáttmálinn vera barn síns tíma og þá sérstaklega vegna þess að einungis Bandaríkin og Rússland hafi skrifað undir hann. Önnur ríki hafi samt sem áður getað þróað og framleitt eldflaugar að vild og átti hann þar sérstaklega við Kína.

Kínverjar hafa komið slíkum eldflaugum fyrir í Asíu og Suður-Kínahafi.

Trump sagði í síðustu viku, eins og Reuters bendir á, að hann langaði að halda viðræður um nýtt samkomulag.



Samkvæmt fréttaveitunni Tass, sem er í eigu rússneska ríkisins, sagði Ryabkov í dag að Rússar hefðu heyrt ummæli Bandaríkjamanna á þá leið að nýtt samkomulag á milli fleiri ríkja kæmi til greina. Hann sagði ríkisstjórn Rússlands búast við tillögu varðandi slíkt samkomulag frá Bandaríkjunum.



Ryabkov sagði að ríkisstjórn Rússlands myndi skoða slíka tillögu af miklum áhuga.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×