Erlent

Bandaríkin slíta eldflaugasáttmála við Rússland

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP/Andrew Harnik

Ríkisstjórn Donald Trump ætla að slíta Eldflaugasáttmála á milli Bandaríkjanna og Rússlands á morgun. Sáttmálinn kallast Intermediate-Range Nuclear Treaty (INF) og hefur hann verið við lýði frá tímum kalda stríðsins. Sáttmálinn felur í sér bann við framleiðslu og notkun meðaldrægra (500 til 5000 kílómetrar) eldflauga sem borið geta kjarnorkuvopn og skotið er frá jörðinni.

Sáttmálinn nær ekki yfir eldflaugar skotið er frá skipum, kafbátum eða flugvélum.

Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hafa lengi sagt Rússa brjóta gegn sáttmálanum. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti ákvörðunina í dag og sagði brot Rússa á sáttmálanum ógna öryggi milljóna í Evrópu og Bandaríkjunum.

Hann sagði Bandaríkin hafa veitt Rússum nægan tíma til að breyta hegðun sinni og fara eftir sáttmálanum á nýjan leik. Það hefðu yfirvöld Rússlands ekki gert.

CNN vitnar í yfirlýsingu frá Trump þar sem hann segir Bandaríkin hafa fylgt skilyrðum sáttmálans í rúm 30 ár. Það yrði þó ekki lengur á meðan Rússar gerðu það ekki.

„Við getum ekki verið eina þjóð heimsins sem er bundin af þessum sáttmála eða öðrum,“ sagði Trump.

Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir segjast styðja ákvörðun Bandaríkjanna að fullu því Rússar hafi neitað að fylgja sáttmálanum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lýsti yfir stuðningi við ákvörðun Bandaríkjanna í tísti í dag.

Ríkisstjórn Vladimir Pútín, forseta Rússlands, segist saklaus og hefur sömuleiðis sakað Bandaríkjamenn um að brjóta gegn sáttmálanum. Pútín vísaði í eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna í Rúmeníu í fyrra og sagði auðvelt að breyta því svo hægt væri að skjóta meðaldrægum eldflaugum með því.

Þá sagði hann sömuleiðis að Rússar myndu bregðast við ef Bandaríkin kæmu kjarnorkuvopnum á meðaldrægum eldflaugum fyrir í Evrópu og kjarnorkuvopnum Rússlands yrði miðað á þau ríki sem hýstu þau vopn.

Embættismenn í Evrópu og sérfræðingar telja mögulegt að upplausn sáttmálans muni leiða til nýs vopnakapphlaups á milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Bæði Bandaríkin og Rússlands hafa þó gagnrýnt INF-sáttmálann á undanförnum árum vegna þess að aðrar þjóðir, og þá sérstaklega Kína, séu ekki aðilar að honum. Kínverjum hafi verið frjálst að þróa og framleiða meðaldrægar flaugar að vild.

Þá hafa Kínverjar komið slíkum eldflaugum fyrir í Asíu og Suður-Kínahafi. Eins og er hafa Bandaríkin ekki burði til að sporna gegn þeim eldflaugum vegna INF-sáttmálans.

Trump hefur sagt að hann vilji gera nýjan sáttmála og þá á milli Bandaríkjanna, Rússlands og Kína. Hann hefur sömuleiðis gefið í skyn að hann væri alls ekki hræddur við nýtt vopnakapphlaup.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.