Erlent

Átta látnir af völdum kuldabolans í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Að minnsta kosti átta manns hafa látið lífið af völdum kuldakastsins sem gengur nú yfir miðvesturríki Bandaríkjanna. Þúsundum flugferða hefur verið aflýst, skólum hefur verið lokað og póstsendingar stöðvaðar á meðan mesti kuldinn gengur yfir.

Í Chicago í Illinois-ríki náði frostið þrjátíu gráðum og 37 gráðum í Norður-Dakóta, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sums staða hefur mikil snjókoma fylgt kalda loftinu sem á uppruna sinn að rekja til norðurheimskautsins. Spáð er allt að sextíu sentímetra snjókomu í Wisconsin-ríki.

Vindur hefur jafnframt magnað kuldann upp. Með vindkælingu mældist hitinn -54°C í Grand Forks í Norður-Dakóta í gærmorgun. Kuldinn er svo mikill að Veðurþjónusta Bandaríkjanna hefur varað við því að kalsár geti myndast á innan við tíu mínútum sums staðar.

Á meðal þeirra sem talið er að hafi látist af völdum kuldans er 55 ára gamall karlmaður sem fraus til bana í bílskúr í Milwaukee í Wisconsin. Svo virðist sem að hann hafi hnigið niður þegar hann mokaði snjó. Í Illinois lést 82 ára gamall maður vegna ofkælingar fyrir utan húsið sitt. Námsmaður við Háskólann í Iowa fannst látinn á bak við háskólabyggingu aðfaranótt miðvikudags.

Umferðarslys sem tengjast veðrinu hafa einnig orðið fólki að bana. Þannig varð 75 ára gamall karlmaður fyrir snjóplógi nærri Chicago í gær. Ungt par lét lífið í árekstri af völdum hálku í norðanverðu Indíana.

Pósturinn hefur hætt útburði í hluta tíu ríkja á Sléttunum miklu og í miðvestrinu. Hundruð skóla hefur einnig verið lokað þar. The Guardian segir að í það minnsta 2.700 flugferðum hafi verið aflýst í gær, flestum þeirra um tvo stærstu flugvelli Chicago. Um 1.800 ferðum til viðbótar hefur verið aflýst í dag.

Lestarfyrirtækið Amtrak hefur einnig aflýst lestarferðum til og frá Chicago.


Tengdar fréttir

Manndrápsveður vestanhafs

Hættulegt frost var í norðausturhluta Bandaríkjanna í gær. Fór niður að fjörutíu stigum. Stórborgir lentu illa í heimskautalægðinni og mældist frost til að mynda 32 stig í Chicago. Veðurfræðingar vara við útivist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×