Erlent

Bráðnun á Suðurskautslandinu hefur sexfaldast á fjörutíu árum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vísindamennirnir reiknuðu út hversu miklum ís jöklar á 65 svæðum á Suðurskautslandinu tapa og græða.
Vísindamennirnir reiknuðu út hversu miklum ís jöklar á 65 svæðum á Suðurskautslandinu tapa og græða. Vísir/Getty
Jöklar Suðurskautslandsins bráðna nú mun hraðar en þeir gerðu á síðari hluta 20. aldar og hætta er á að yfirborð sjávar hækki meira á þessari öld en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Ný rannsókn bendir til þess að ísinn bráðni nú sexfalt hraðar en hann gerði á 9. áratugnum. Örlög suðurskautsíssins getur haft mikil áhrif á sjávarstöðu við Ísland.

Innflæði hlýs sjávar er sagt hafa hraðað bráðnun sem á sér stað á Suðurskautslandinu með hnattrænni hlýnun af völdum manna. Frá 1979 til 1989 tapaði álfan um fjörutíu milljörðum tonna af ís á ári. Frá árinu 2009 hefur tapið verið 252 milljarðar tonna á ári samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtust í tímariti Bandarísku vísindaakademíunnar í gær.

Mest er ístapið á vestanverðu Suðurskautslandinu. Þar hefur Furueyjujökullinn einn og sér misst meira en biljón (milljón milljónir) tonna af ís frá 1979, að því er segir í frétt Washington Post um rannsóknina. Thwaites-jökullinn hefur misst 634 milljarða tonna af ís á sama tímabili. Í heildina er nógu mikið af ís á vesturhluta Suðurskautslandsins til þess að hækka yfirborð sjávar um 5,28 metra á heimsvísu.

Gæti tvöfaldað sjávarstöðuhækkun við Ísland

Fram að þessu hefur verið talið að ísinn á austanverðu Suðurskautslandinu sé stöðugri. Langmest af ísnum á suðurskautinu er að finna þar. Rannsóknin nú leiðir í ljós að mikil bráðnun á sér stað austanmegin og að stórir jöklar þar tapa ís hratt. Svo mikill ís er á austurhluta Suðurskautslandsins að ef hann bráðnaði allur gæti yfirborð sjávar hækkað um tæpa 52 metra.

„Það hefur lengi verið vitað að Vestur-Suðurskautslandið og Suðurskautsskaginn væru að missa massa en að uppgötva að verulegt ístap eigi sér einnig stað á Austur-Suðurskautslandinu er virkilega mikilvægt vegna þess að það er svo mikil möguleg sjávarstöðuhækkun falin í þessum dældum,“ segir Christine Dow, jöklafræðingur við Waterloo-háskóla í Kanada.

Á Íslandi er búist við minni hækkun sjávarmáls en hnattræna meðaltali á þessari öld. Ástæðan er bráðnun íssins á Grænlandi. Íshellan þar er svo massamikil að þyngdarsvið jökulsins hækkar sjávarstöðuna í nágrenni hans, þar á meðal við Ísland. Þegar ísinn þar bráðnar slaknar á þyngdarkraftinum og yfirborð sjávar lækkar hér en hækkar hins vegar sunnar á hnettinum.

Á sama hátt á sjávarstaðan við Ísland mikið undir því hvað verður um ísinn á suðurhveli jarðar. Varað var við því í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi í fyrra að verði hrun í jöklum á Suðurskautslandinu geti spáin um sjávarstöðuhækkun við landið tvöfaldast skyndilega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×