Erlent

Breti handtekinn vegna banaslyss á Thames eftir hálft ár á flótta

Atli Ísleifsson skrifar
Jack Shepherd var handtekinn í Georgíu.
Jack Shepherd var handtekinn í Georgíu. EPA
Lögregla í London segir að breskur karlmaður, sem hafði hlotið dóm fyrir að hafa orðið konu að bana í slysi á ánni Thames, hafi verið handtekinn í Georgíu. Jack Shepherd lagðist á flótta skömmu áður en dómurinn var kveðinn upp í júlí á síðasta ári og hafði hans verið leitað í um hálft ár.

Shepherd var í júlí síðastliðinn dæmdur að honum fjarverandi í sex ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Var hann valdur að láti hinnar 24 ára Charlotte Brown.

Í yfirlýsingu frá bresku rannsóknarlögreglunni Scotland Yard segir að Jack Shepherd hafi verið handtekinn og væri nú í haldi lögreglunnar í Georgíu. Hafi hann gefið sig fram við lögreglu. Gefin hafði verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum og er nú unnið að því að fá hann framseldan til Bretlands.

Charlotte Brown var 24 ára þegar hún lést.Lundúnalögreglan
Reuters segir frá því að Shepherd hafi farið með Brown á þeirra fyrsta stefnumót í desember 2015. Hafi þau farið út að borða á veitingastað í hæstu byggingu London, The Shard, áður en hann bauð henni í ferð á ánni Thames um borð í hraðbáti í hans eigu.

Saksóknarar sögðu Shepherd hafa verið ölvaðan þegar hann stýrði bátnum og lenti í slysinu. Hvorki hann né Brown voru klædd í björgunarvesti þegar slysið varð og þau köstuðust þau bæði í ána. Shepherd tókst að bjarga sér en Brown drukknaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×