Erlent

Ástsæll Top Chef-keppandi látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fatima Ali við keppni í Top Chef.
Fatima Ali við keppni í Top Chef. Getty/Paul Trantow
Kokkurinn Fatima Ali, sem hlaut áhorfendaverðlaun fyrir þátttöku sína í fimmtándu þáttaröð Top Chef, lést á föstudag eftir baráttu við krabbamein. Ali var 29 ára.

Ali er fædd í Pakistan en flutti átján ára til Bandaríkjanna til að læra matreiðslu í New York. Hún var fyrst greind með krabbamein, illkynja æxli í beinum, árið 2017. Ali greindi reglulega frá glímu sinni við krabbamenið í færslum á Instagram og ræddi hana jafnframt í spjallþætti Ellen DeGeneres í nóvember síðastliðnum.

Þá er Ali þekktust fyrir að vera keppandi í fimmtándu þáttaröð raunveruleikaþáttanna Top Chef sem sýndir eru á bandarísku sjónvarpsstöðinni Bravo. Talsmaður stöðvarinnar staðfesti fregnir af andláti Ali í yfirlýsingu og kom á framfæri samúðarkveðjum til fjölskyldu hennar. Ali var afar vinsæll keppandi í þáttunum og hlaut áhorfendaverðlaun, þ.e. var valin svokallað „fan favourite“, fyrir þátttöku sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×