Erlent

Danir hefja fram­kvæmdir við lagningu 70 kíló­metra landa­mæra­girðingar

Atli Ísleifsson skrifar
Giirðingin verður um einn og hálfur metri á hæð. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Giirðingin verður um einn og hálfur metri á hæð. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty
Framkvæmdir hófust í dag verið lagningu sjötíu kílómetra girðingar á landamærum Danmerkur og Þýskalands. Fyrstu staurunum var komið fyrir við dönsku borgina Padborg á Jótlandi fyrr í dag, en með girðingunni vonast Danir til að hægt verði að koma í veg fyrir straum villisvína frá Evrópu og til landsins.

Í frétt Jyllands-Posten segir að meirihluti hafi verið á danska þinginu fyrir framkvæmdinni, en girðingin verður um einn og hálfur metri á hæð. Þá mun girðingin ná hálfan metra niður í jörðina.

Að sögn forsvarsmanna danska Landbúnaðar- og matvælaráðsins (Landbrug & Fødevarer) á með girðingunni að tryggja að dönsk svín smitist ekki af skæðum smitsjúkdómum eins og afrískri svínapest. Smitist danski stofninn kann það að kosta danska skattgreiðendur ellefu millljarða danskra króna, um 200 milljarða íslenskra króna.

Danskur iðnaður í hættu

Svínarækt er mjög mikilvægur iðnaður í Danmörku og telur Landbúnaðar- og matvælaráðið að lifibrauð 33 þúsund einstaklinga kunni að vera í hætti, nái pestin til landsins.

Afrísk svínapest hefur komið upp víða í Evrópu að undanförnu, meðal annars í Póllandi, Eystrasaltslöndunum og Belgíu. Framkvæmdin hefur sætt talsverðri gagnrýni, meðal annars frá þýskum þingmönnum og dýraverndunarsamtökunum sem segja girðinguna hafa áhrif á að aðrar dýrategundir nái að þrífast á svæðinu.

Áætlaður kostnaður er um 30 milljónir danskra króna, um 560 milljónir íslenskra, og er vonast til að framkvæmdum við girðinguna ljúki næsta haust.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.