Innlent

Herjólfur alfarið knúinn rafmagni fyrir 830 milljónir

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Stefnt er að því að sigla 7 sinnum á dag þegar nýi Herjólfur verður tekinn í notkun. Hér má sjá nýju ferjuna í Póllandi, þar sem hún var smíðuð.
Stefnt er að því að sigla 7 sinnum á dag þegar nýi Herjólfur verður tekinn í notkun. Hér má sjá nýju ferjuna í Póllandi, þar sem hún var smíðuð.
Samgönguráðuneytið hefur ákveðið að setja 830 milljónir króna í rafvæðingu nýju Vestmannaeyjaferjunnar, Herjólfs. Ferjan var upphaflega hönnuð sem svokölluð tvinnferja, það er að segja, rafmótorar knýja skrúfurnar, en raforkan átti að koma frá litlum rafgeymum sem díselrafstöðvar skipsins myndu hlaða inn á.

Við hönnunina var hinsvegar ávallt gert ráð fyrir auka rými fyrir rafgeyma þannig að ferjan gæti siglt alfarið fyrir raforku, síðar meir. Í minnisblaði frá ráðuneytinu til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis kemur fram að verð á rafgeymum hafi lækkað hratt á undanförnum misserum og nú hafi verið ákveðið að hefja rafvæðinguna strax, áður en skipinu verður skilað.

Eins og áður sagði er viðbótarkostnaðurinn við þetta verk 830 milljónir króna en gert er ráð fyrir því að breytingin muni skila beinum fjárhagslegum ávinningi, með lægri orkukostnaði, á innan við tíu árum. Kostnaður við að breyta ferjunni síðar er áætlaður meiri auk þess sem þá þyrfti að taka ferjuna úr notkun.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.