Erlent

Með áhyggjur af afskiptum Bannons

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Steve Bannon hefur hafið afskipti af Evrópuþingskosningunum.
Steve Bannon hefur hafið afskipti af Evrópuþingskosningunum. NORDICPHOTOS/AFP
Evrópusambandið vinnur nú að því að koma í veg fyrir dreifingu falsfrétta sem kunna að hafa áhrif á Evrópuþings­kosningarnar í vor. Auka á samvinnu Evrópusambandsríkja í því skyni og auka samvinnu milli samfélagsmiðla þar sem falsfréttir geta fengið dreifingu.

Samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins hefur helsta ógnin hingað til stafað frá Rússlandi. Evrópumálaráðherra Svíþjóðar, Ann Linde, telur hins vegar einnig ástæðu til að óttast aðgerðir Steves Bannon, sem áður var einn nánasti ráðgjafi Trumps, en hann hefur hafið afskipti af kosningabaráttunni fyrir Evrópuþings­kosningarnar. Hann hafi sýnt það í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum að hann hafi beitt aðferðum sem menn vilji helst ekki sjá, eins og til dæmis að nota Twitter­ og Facebook til að greina skoðanir einstaklinga og senda síðan út rangar upplýsingar.

Bannon var áður aðstoðarframkvæmdastjóri greiningarfyrirtækisins Cambridge Analytica sem safnaði án leyfis persónuupplýsingum um margar milljónir notenda Facebook í því skyni að senda út pólitískan boðskap fyrir bandarísku kosningarnar 2016.

Bannon er nú sagður vonast til að geta sameinað þjóðernisflokka í Evrópu og var hann nýlega í Brussel í því skyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×