Erlent

Corbyn vill nýjar kosningar en ekki þjóðaratkvæðagreiðslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. EPA/NIGEL RODDIS
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokks Bretlands, segir að ef Brexit-samkomulag Theresu May, forsætisráðherra, verði fellt á þingi, sem er óhjákvæmilegt að hans mati, eigi að boða til nýrra kosninga. Hann vill þó ekki boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Hann sagði að verði samningi May hafnað þyrfti nýja ríkisstjórn með nýtt umboð kjósenda til að semja við ESB á nýjan leik.



Þingmenn Íhaldsflokksins segja þó að Corbyn sitji ekki á nokkurs konar áætlun og sé að hugsa um eigin hag en ekki hag Breta.

Áætlað er að Bretland gangi úr ESB þann 29. mars. Samkomulag May sem fjallar meðal annars um viðskipti, réttindi íbúa á milli ríkja og margt fleira tekur ekki gildi nema breska þingið samþykki það. Corbyn segir að verði boðið til nýrra kosninga yrði best að fresta Brexit á meðan samið yrði á nýjan leik.

Verði ekki boðað til kosninga segir Corbyn að vantrauststillaga gegn ríkisstjórn May verði lögð fyrir þingið. Þingmenn Verkamannaflokksins eru þó ekki nægilega margir til að koma slíkri tillögu í gegnum þingið og því þyrfti stuðning annarra flokka til að ná fram kosningum.

„Ríkisstjórn sem kemur málum sínum ekki í gegnum þingið er í rauninni ekki ríkisstjórn. Hún þarf að snúa sér til þjóðarinnar og endurnýja umboð sitt,“ sagði Corbyn.

Corbyn hét því einnig að brúa bilið milli þeirra sem styðja Brexit og þeirra sem eru andvígir Brexit. Hann sagði hina raunverulegu deilu Bretlands vera á milli þeirra mörgu sem, samkvæmt honum, ynnu alla vinnuna, sköpuðu auðinn og borguðu skatta, og þeirra fáu sem semdu reglurnar og svikju undan skatti.

Raunveruleg lausn á deilumálum Breta væri að breyta ríkinu svo það ynni fyrir hagsmunum meirihlutans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×