Enski boltinn

Hata allir Liverpool eða kannski bara stuðningsmenn Manchester United?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar marki með Liverpool.
Mohamed Salah fagnar marki með Liverpool. Getty/Richard Heathcote
BBC kannaði hljóðið í nokkrum enskum fótboltaáhugamönnum þar sem umræðuefnið var mögulegur meistaratitill Liverpool í vor. Það lítur út fyrir það á samfélagsmiðlum að mjög margir séu á móti velgengni Liverpool sem hefur ekki orðið enskur meistari í 29 ár.

Liverpool hefur spilað frábærlega á þessu tímabili, liðið er með heillandi og hrífandi knattspyrnustjóra sem hefur byggt upp þetta lið í þrjú ár og þá er Liverpool með fullt af flottum leikmönnum og spilar skemmtilegan fótbolta. Það er líka langt frá því að stuðningsmenn Liverpool séu að fanga sigri á hverju ári.

Það er því ekkert skrýtið að blaðamaður BBC kafi aðeins dýpra ofan í það hvaðan allt þetta Liverpool hatur komi meðal stuðningsmanna annarra félaga á Englandi (og Íslandi). Eða eru það bara læti á yfirborðinu.

Spurningin hjá BBC var um hvort að hlutlausu stuðningsmennirnir vilji alls ekki að Liverpool verði loksins enskur meistari eða hvort þetta sé bara goðsaga á samfélagsmiðlum.

Liverpool er með fjögurra stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en tapaði síðasta leik á móti Englandsmeisturum Manchester City. Liverpool gat því náð tíu stiga forskoti á City en með sigrinum komust City-menn aftur á fullt inn í baráttuna um titilinn.





Fyrir leikinn voru stuðningsmenn Manchester United að lýsa því yfir að þeir héldu nú með nágrönnunum sínum í Manchester City til að koma í veg fyrir sigur Liverpool. Sumir hótuðu því líka að yfirgefa landið ef Liverpool myndi loksins taka titilinn.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart að stuðningsmenn Manchester United vilji alls ekki að Liverpool vinni titilinn en hvað með þá hjá Everton.

„Það mega öll lið vinna deildina nema Liverpool. Meira að segja City,“ sagði Man United stuðningsmaðurinn Jack Buckley.

Everton stuðningsmaðurinn Joe Armitage kemur kannski mörgum á óvart. „Ég hef aldrei viljað að þeir myndu vinna neitt. Á þessu tímabili hafa þeir verið með langbesta liðið og ég tel að þeir muni vinna titilinn og eigi það líka skilið,“ sagði Joe Armitage.

En hvað með þá hlutlausu? Steve Taylor frá Carlisle gengur mjög langt. „Ef Liverpool vinnur deildina þá gæti það verið nauðsynlegt að yfirgefa norðurhluta Englands. Þegar Liverpool vann Meistaradeildina 2005 þá opnast næstum því hliðið niður í undirheima. Það var óbærilegt í mörg ár. Ef þeir vinna deildina þá er ekki hægt að skrifa það á einhverja heppni sem var eina leiðin til að þagga niður í stuðningsmönnum Liverpool þá,“ sagði Steve Taylor.





„Ég vil að City vinni af því annars fengjum við ekki að heyra um annað en þennan titil Liverpool næstu 30 árin“ sagði Vic Singh, stuðningsmaður West Ham.

„Það var gott að sjá Liverpool tapa einum leik og geta því ekki lengur náð taplausu tímabil. Það kom líka með spennu aftur í mótið. Svo framarlega sem Spurs verður ekki enskur meistari þá skiptir það mig engu máli hvort Liverpol eða Man. City vinni titilinn,“ sagði Scotty, stuðningsmaður Arsenal.

„Ég myndi elska það að sjá þá taka titilinn. Stuðningsmennirnir þeirra trufla mig ekki, þeir eru bara ástríðufullir og trúa á sitt lið. Það er svo dæmigert fyrir Englendinga að hata stuðningsmenn Liverpool fyrir alla bjartsýnina,“ sagði Samuel Mooney, stuðningsmaður Nottingham Forrest.

„Eins mikið og ég þoli ekki Liverpool þá vil ég frekar að þeir vinni en City. Liverpool á góða möguleika núna og mér finnst liðið spila betri fótbolta en City,“ sagði Kerry Nicholls, stuðningsmaður Chelsea.





„Flestir vilja að Liverpool vinni. Þetta eru bara nokkrir póstar frá nokkrum öngugum mönnum á Twitter. Hver vill eiginlega að Manchester City vinni þegar liðið er byggt upp á peningum, peningum, peningum og peningum. Koma svo Liverpool,“ sagði Tommy Walker, stuðningsmaður Middlesbrough.

„Ég er alveg hlutlaus og mín ósk er að öll önnur lið en Man Utd, Man City eða Chelsea vinni deildina. Þau hafa unnið 13 af síðustu 14 titlum. Það væri allt í lagi ef Arsenal tæki þetta en ef Liverpool eða Spurs vinna þá fengjum við nýja meistara í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Christopher Heward við BBC.

„Liverpool frekar en City. Stuðningsmenn Liverpool geta verið pirrandi en City átti enga stuðningsmenn fyrr en árið 2010.,“ sagði Ryan Ward.

Það má lesa fleiri skemmtileg svör með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×