Glæsimark Willian skaut Chelsea sex stigum frá Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Willian var hetja Chelsea í kvöld.
Willian var hetja Chelsea í kvöld. vísir/getty

Chelsea er komið sex stigum á undan Arsenal eftir 2-1 sigur á Newcastle á Brúnni í kvöld. Sigurmarkið gerði Brasilíumaðurinn Willian.

Fyrsta markið kom strax á áttundu mínútu og það var afar einfalt. David Luiz gaf langa sendingu á Pedro sem tók við boltanum og vippaði boltanum yfir Martin Dubravka í marki Newcastle.

Chelsea réð áfram lögum og lofum en það voru hins vegar gestirnir sem jöfnuðu metin fimm mínútum fyrir hlé. Það gerði Ciaran Clark með þrumuskalla eftir hornspyrnu. Allt jafnt í leikhlé.

Sigurmarkið kom svo á elleftu mínútu síðari hálfleiks. Eden Hazard lagði boltann á Willian sem tók boltann með sér og skrúfaði boltann frábærlega í fjærhornið. Lokatölur 2-1.

Arsenal tapaði gegn West Ham fyrr í dag og er nú Chelsea sex stigum á undan þeim í baráttunni um fjórða sætið. Manchester United getur jafnað Arsenal að stigum með sigri gegn Tottenham á morgun.

Newcastle er í bullandi vandræðum. Liðið er í átjánda sæti deildarinnar með átján stig, stigi frá öruggu sæti í deildinni. Verk að vinna fyrir Rafa Benitez en sextán leikir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.