Erlent

Dregur til baka hótanir um neyðarástand

Andri Eysteinsson skrifar
Trump við umræðurnar í Hvíta húsinu í dag. Við hlið hans er fógetinn AJ Louderback frá Jackson sýslu
Trump við umræðurnar í Hvíta húsinu í dag. Við hlið hans er fógetinn AJ Louderback frá Jackson sýslu Shawn Thew

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, hefur dregið til baka fyrirætlanir sínar um að lýsa yfir neyðarástandi til þess að fjármagna umtalaðan landamæramúr.

Pressan hefur aukist mjög á Trump um að finna lausn til þess að binda enda á lokanir alríkisstofnana sem hafa staðið yfir í þrjár vikur. Lokanirnar hafa haft það í för með sér að hundruð þúsunda Bandaríkjamanna hafa ekki fengið greidd laun. Guardian greinir frá.

Trump hafði áður viðrar þær hugmyndir sínar að lýsa yfir neyðarástandi og í kjölfarið nota stöðuna til þess að tryggja fjárveitingu til þess að reisa múrinn í óþökk Bandaríkjaþings sem nú er stjórnað af demókrötum.

Trump tók það fram fyrr í dag að hann hefði möguleikann á því að lýsa yfir neyðarástandi og sagði að lögfræðingar hans hefðu staðfest að slíkt stæðist lög.

Lokanirnar að verða þær lengstu í sögunni

Trump ákvað hins vegar að lýsa því ekki yfir og þess í stað skoraði hann á Demókrata og bað um að þeir finndu leiðir til þess að stöðva lokanirnar sem brátt verða þær lengstu í sögu Bandaríkjanna.

„Við viljum að þingið vinni vinnuna sína,“ sagði forsetinn í umræðum um landamæraöryggi í Hvíta húsinu í dag og bætti við „við erum ekki að fara að lýsa yfir neyðarástandi“.

Í Washington borg var boðað til mótmæla fyrir utan Hvíta húsið. Þar söfnuðust ríkisstarfsmenn, sem ekki hafa fengið greidd laun, saman og mátti sjá skilti með skilaboðum á borð við „Við viljum vinna, ekki múr“ (We want work, not walls).

Forsetinn var spurður út í þá erfiðleika sem launalausir ríkisstarfsmenn hafa þurft að mæta á vikunum þremur. Trump sneri þá út úr og sagðist finna til með þeim fjölskyldum sem misst hefðu ástvini vegna glæpamanna sem komið hafa yfir landamærin við Mexíkó.


Tengdar fréttir

Fallegi múrinn sem varð að girðingu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekaði í gærkvöldi þá hótun sína að lýsa yfir neyðarástandi á suðurlandamærum Bandaríkjanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.