Enski boltinn

Liverpool maður mögulega til bjargar í framherjahallæri Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Divock Origi.
Divock Origi. Getty/Malcolm Couzens

Tottenham verður án tveggja bestu framherja sinna á næstunni og möguleg lausn er að fá leikmann að láni frá Liverpool.

Harry Kane er meiddur á ökkla og spilar ekki aftur fyrr en í mars. Son Heung-min er upptekinn í Asíukeppninni og verður það mögulega fram í febrúar.

Son verður frá til 2. febrúar komist Suður-Kórea alla leið í úrslitaleikinn. Það þýddi að hann myndi missa af deildarleikjum við Fulham, Watford og Newcastle, bikarleik á móti Crystal Palace og svo seinni undanúrslitaleiknum á móti Chelsea í enska deildabikarnum.

Tottenham þarf því að treysta á Fernando Llorente eða reyna að ná í nýjan mann. Llorente var á förum til Athletic Bilbao en nú verður ekkert af því. Spænski framherjinn minnti á sig á dögunum með þrennu á móti Tranmere í enska bikarnum.

Telegraph skrifar um möguleika á því að Liverpool framherjinn Divock Origi fari til Tottenham liðsins. Origi á eftir átján mánuði af samningi sínum við Liverpool en þessi 23 ára strákur fær ekki mörg tækifæri hjá Jürgen Klopp.Divock Origi hefur ekki spilað marga leiki með Liverpool í vetur en sigurmarkið hans á móti Everton er engu að síður eitt af mikilvægari mörkum liðsins á leiktíðinni.

Divock Origi er á góðum aldri hafi Mauricio Pochettino yfir höfuð trú á honum en það er vitað að Pochettino er líka mikill aðdáandi Jay Rodriguez sem er að spila vel hjá West Bromwich Albion. Jarrod Bowen hjá Hull City er annað nafn sem hefur verið uppi á borði.

Tottenham getur einnig horft meira til enska landsliðsmannsins Dele Alli þegar kemur að því að skora mörk í fjarveru Kane en eins getur Lucas Moura farið framar á völlinn til að fylla í skarðið. Það er því ekkert víst að Mauricio Pochettino nái í nýjan framherja í þessu framherjahallæri Tottenham liðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.