Enski boltinn

Pochettino vonast til að Eriksen framlengi þrátt fyrir áhuga stórliða

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pochettino og Eriksen á góðri stundu.
Pochettino og Eriksen á góðri stundu. vísir/getty
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, segir að það væri frábært ef að Christian Eriksen myndi skrifa undir nýjan samning við félagið en er ekki viss hvað framtíðin beri í skauti sér.

Danski landsliðsmaðurinn á einungis átján mánuði eftir af samningi sínum við Lundúnarliðið og hefur hann verið orðaður við mörg af stærstu liðum Evrópu.

„Engar fréttir eru góðar fréttir. Hver veit? Fótbolti snýst um áhuga og við sem stjórar getum stundum ekki stjórnað hlutunum. Þetta veltur á mörgum hlutum,“ sagði Pochettino er hann var spurður um Danann.

„Auðvitað er Eriksen mikilvægur fyrir okkur og þú værir værir til í að hafa svona leikmann í liðinu þínu en þetta eru viðræður milli mismunandi aðila.“

Eriksen hefur verið í fantaformi á leiktíðinni. Hann hefur skorað sex mörk og lagt upp önnur níu í þeim 25 leikjum sem hann hefur spilað í öllum keppnum á leiktíðinni.

„Það væri frábært ef Eriksen myndi skrifa undir langtímasamning við félagið en ef ekki þá er það hans réttur til þess að gera það sem honum langar til að gera,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×