Erlent

Handteknir fyrir að fagna Marokkómorðunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn.
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn. Myndir/Facebook
Lögregla í Marokkó hefur handtekið fjórtán einstaklinga fyrir að hafa lofsamað og fagnað morðunum á tveimur norrænum konum í Atlasfjöllunum um miðjan desember. Norska dagblaðið Verdens Gang, VG, hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum í dag.

Í frétt VG segir að sakborningarnir fjórtán hafi allir verið ákærðir og þá hafi einn þeirra þegar verið dæmdur til eins árs fangelsisvistar eða til sektargreiðslu sem nemur um 60 þúsund íslenskum krónum. Fyrir tveimur vikum var greint frá því að lögregla í Marokkó hefði handtekið doktorsnema fyrir að hafa fagnað morðunum í færslum á samfélagsmiðlum.

Þá greinir VG einnig frá því að á meðal hinna fjórtán handteknu sé ritstjóri marokkósks vefmiðils. Honum er gefið að sök að hafa deilt myndbandi, sem sýnir hrottalegt morðið á annarri konunni, inn á hópspjall með öðrum blaðamönnum og lofsamað voðaverkið.

Sjá einnig: „Hafi bróðir minn gert þetta þá á hann skilið að deyja“

Þrír mannanna sem handteknir voru í Marrakesh skömmu eftir að lík kvennanna fundust. Þeir eru grunaðir um að hafa myrt þær.Mynd/Lögregla í Marokkó

Svisslendingurinn ásamt sex öðrum leiddur fyrir dómara

Fjölmargir hafa verið handteknir í tengslum við morðin á konunum tveimur, Louisu Vesterager Jespersen og Maren Ueland. Þar af hafa tuttugu og tveir verið handteknir vegna gruns um aðild að hryðjuverkum í tengslum við morðin.

Fjórir menn sem handteknir voru í Marrakesh skömmu eftir að konurnar fundust látnar eru sagðir höfuðpaurar í málinu. Þeim er gefið að sök að hafa myrt Ueland og Jespersen og þá eru þeir taldir hafa svarið hryðjuverkasamtökunum ISIS hollustu sína.

Þá var svissneskur ríkisborgari handtekinn skömmu fyrir áramót vegna málsins en hann er sagður hafa þjálfað nokkra af þeim sem grunaðir eru um aðild að morðunum. Í tilkynningu frá lögregluyfirvöldum í Marokkó sem send var út í dag segir að sjö einstaklingar, þar á meðal áðurnefndur Svisslendingur, hafi þegar verið leiddir fyrir dómara í tengslum við hryðjuverkarannsóknina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×