Enski boltinn

Klopp: Mér líkar vel við Kompany en hvernig í veröldinni er þetta ekki rautt spjald?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var ekki ánægður með ákvörðun dómara leiksins, Anthony Taylor, að gefa Vincent Kompany fyrirliða Manchester City ekki rautt spjald í kvöld.

Liverpool tapaði sínum fyrsta leik þetta tímabilið er liðið tapaði 2-1 gegn City á Etihad-leikvanginum í kvöld en mikil harka var í leiknum og hraðinn eftir því.

„Það var mikil pressa hér í dag og það var mikil ákefð í leiknum. Við vorum óheppnir í færunum okkar og óheppnari en City myndi ég segja,“ sagði Klopp við Sky Sports í leikslok.

„Sane skorar og Sadio skýtur í stöngina. Það voru augnablik í leiknum þar sem þeir réðu algjörlega leiknum en við komum til baka og fengum góð færi.“

„Þetta er alltaf svona. Þú verður að nýta færin þín. Þegar Aguero skoraði var færið ekkert. Í svipuðum aðstæðum þá skoruðum við ekki. Hvorki við né City spiluðum okkar besta leik því bæði lið gerðu hvort öðru erfitt fyrir,“ en þetta var fyrsta tap Liverpool í deildinni.

„Ég hef talað við strákana og sagt að þetta sé allt í lagi. Við töpuðum en það mun ske. Í kvöld er þetta ekki góð tilfinning en það er ekki stærsta vandamálið.“

Umdeilt atvik átti sér stað í fyrri hálfleik er Vincent Kompany tæklaði Mohamed Salah nokkuð groddaralega. Komapny fékk einungis gult spjald fyrir og því var Klopp ekki sammála.

„Mér líkar vel við Kompany en hvernig í veröldinni er þetta ekki rautt spjald? Hann er síðasti maður og ef hann hittir Salah er hann frá út tímabilið. Þetta var ekki auðvelt fyrir dómarann og kannski sá hann þetta ekki.“

„Við setjum kröfur á okkur sjálfa og við getum spilað betur en þetta. Á hinn bóginn var ákefðin mikil í leiknum og þú verður að taka því hvernig leikurinn þróast og með heppni hefði þetta getað endað 2-2 sem hefði verið frábært fyrir okkur,“ sagði Þjóðverjinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×