City í seilingarfjarlægð frá Liverpool eftir sigurmark Sane

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sane fagnar sigurmarkinu.
Sane fagnar sigurmarkinu. Vísir/Getty
Manchester City minnkaði forskot Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar niður í fjögur stig er City vann viðureign liðanna í kvöld, 2-1. Leroy Sane skoraði sigurmarkið.

Fyrri hálfleikurinn fór afar rólega af stað og bæði liðin voru ekki tilbúnar að taka miklar áhættur snemma leiks. Bæði liðin voru með margar misheppnaðar sendingar og það virkaði smá taugaveiklun í liðunum.

Fyrsta færið kom á 18. mínútu og það var heldur betur dauðafæri. Sadio Mane slapp þá einn í gegn en skaut boltanum í stöngina. Boltinn barst út í teiginn, þar sem mikill darraðadans hófst.

John Stones skaut boltanum í markvörðinn sinn, Ederson, og boltinn stefndi í markið en Stones náði að bjarga andlitinu og kom boltanum frá á síðustu stundu. Marklínutæknin sýndi að boltinn var rúmum einum sentímetra frá að fara inn. Ótrúlegt.

Fyrsta markið kom fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Þá skoraði Sergio Aguero en Argentínumaðurinn kláraði færið frábærlega eftir sendingu frá Bernardo Silva. Hann skaust fram fyrir Lovren og skaut boltanum á nærstöngina, framhjá varnarlausum Alisson.

City leiddi 1-0 í hálfleik en jöfnuarmarkið kom á 64. mínútu er Roberto Firmino jafnaði. Trent-Alexander Arnold gaf frábæra sendingu á fjærstöngina þar sem Andy Robertson kom á ferðinni. Hann lagði boltann fyrir markið þar sem Firmino kom boltanum yfir línuna. Flott liðs mark og allt jafnt.

Adam var ekki lengi í paradís hjá Liverpool því á 72. mínútu kom Leroy Sane City aftur yfir. Hann fékk sendingu frá fyrrum Liverpool-manninum og þrumaði boltanum í stöng og inn. Frábærlega afgreitt.

Liverpool fékk tækifæri til þess að jafna metin en fimm mínútum fyrir leikslok varði Ederson frábærlega frá Salah. Skömmu áður hafði Aguero getað gert út um leikinn en þá varði hinn brasilíski markvörðurinn, Alisson.

Að endingu var það City sem vann 2-1 sigur og er nú fjórum stigum á eftir Liverpool. Fyrsta tap Liverpool í deildinni á leiktíðinni. City er með 50 stig í öðru sætinu en Liverpool er á toppnum með 54. Totenham er í þriðja sætinu með 48 stig. Allt galopið í toppbaráttunni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira