Erlent

„Ég var logandi hrædd við skrímslið“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Depp og Heard í febrúar árið 2016, þremur mánuðum áður en Heard sótti um skilnað.
Depp og Heard í febrúar árið 2016, þremur mánuðum áður en Heard sótti um skilnað. Getty/John Shearer

Ný gögn sem miðillinn Hollywood Reporter hefur undir höndum varpa ljósi á hatramma skilnaðardeilu leikaranna Johnny Depp og Amber Heard. Í gögnunum lýsir Heard ofbeldi sem hún segir að Depp hafi beitt sig er þau voru gift. Búist er við því að skjölin muni gegna veigamiklu hlutverki í meiðyrðamáli sem Depp höfðaði gegn dagblaðinu The Sun í fyrra.

Gögnin telja samtals 471 blaðsíðu. Á meðal þess sem þar kemur fram er vitnisburður Heard við skýrslutöku á skrifstofu lögfræðings Depps í ágúst árið 2016, tveimur mánuðum eftir að hún sótti um skilnað.

„Við Johnny tölum um hinn persónuleika hans, hluta hans sem er viðstaddur þegar hann lemur mig í klessu, við köllum hann skrímslið og höfum kallað hann skrímslið í mörg ár,“ er m.a. haft eftir Heard.

„Ég var logandi hrædd við skrímslið,“ bætti hún við.

Sjá einnig: Johnny Depp sagður vera einmana maður á villigötum

Í gögnunum er einnig að finna vitnisburð lögreglumanna sem voru kallaðir að heimili hjónanna í maí árið 2016 eftir að upp úr sauð þeirra á milli. Samkvæmt vitnisburði Heard, sem rakinn er í skjölunum, kastaði Depp síma hennar í hana „eins fast og hann gat“, lamdi hana í andlitið og dró hana á hárinu eftir gólfinu umrætt kvöld í maí. Frásögn Depp af kvöldinu stangast á við þetta en hann heldur því fram að Heard hafi kýlt sig ítrekað í höfuðið.

Gert er ráð fyrir að skjölin muni gegna veigamiklu hlutverki í meiðyrðamáli sem Depp höfðaði á hendur breska götublaðinu The Sun vegna fréttar sem birtist í apríl árið 2018. Depp var kallaður ofbeldismaður í fyrirsögn fréttarinnar sem fjallaði um ráðningu hans í hlutverk galdramannsins Grindelwald í Fantastic Beasts-kvikmyndaseríunni. Þá voru ásakanir Heard einnig tíundaðar í umfjöllun blaðsins. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð í málinu fari fram í febrúar næstkomandi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.