Íslenski boltinn

Valsmenn fengu 144 milljónir fyrir Evrópukeppnina í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn voru hársbreidd frá því að komast enn lengra.
Valsmenn voru hársbreidd frá því að komast enn lengra. Vísir/Bára
Íslandsmeistarar Vals fá mikinn pening fyrir frammistöðu sína í Evrópukeppninni síðasta sumar en fjögur íslensk félög frá greiðslur vegna Evrópukeppninnar 2018.

Félögin eru auk Valsmanna, FH, Stjarnan og ÍBV. Valsmenn fá langmest en ÍBV fær minnst. Eyjamenn komust ekki áfram úr 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og það skýrir lága upphæð þeirra.

Stjarnan og FH komust bæði áfram í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en duttu þar úr leik.

Valsmenn byrjuðu í forkeppni Meistaradeildarinnar þar sem þeir töpuðu fyrir Rosenborg en fór síðan í gegnum 2. umferð og í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem Valsliðið datt út á útivallarmarki á móti Sheriff frá Moldóvu.

Knattspyrnuþjálfarinn og KR-ingurinn valinkunni Sigurður Helgason hefur grafið upp upplýsingar um greiðslurnar og segir frá þeim á fésbókinni. Hann birtir þar líka mynd úr uppgjöri UEFA af skiptingu peninganna til félaganna.  

Valsmenn fá 1.080.000 evrur eða rúmar 144 milljónir íslenskra króna.

FH-ingar og Stjörnumenn fá 500 þúsund evrur eða 66,7 milljónir íslenskra króna.

Eyjamenn fá síðan 240 þúsund evrur eða 32 milljónir íslenskra króna.

Valsliðið fær 540 þúsund evrur fyrir Meistaradeildina og 540 þúsund evrur fyrir Evrópudeildina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×