Erlent

Trump segist tilbúinn að halda alríkisstofnunum lokuðum í fleiri ár

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump ræðir hér við fjölmiðla fyrr í dag.
Donald Trump ræðir hér við fjölmiðla fyrr í dag. Al Drago/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera viðbúinn því að lokun stórs hluta alríkisstofnana Bandaríkjanna, sem til er komin vegna ágreinings Demókrata og Repúblikana um fjármögnun til byggingar múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, muni vara lengi, jafnvel til margra ára.

Þetta staðfesti Trump á blaðamannafundi sem haldinn var í kjölfar fundar hans við Nancy Pelosi, leiðtoga Demókrata í fulltrúadeild þingsins, og Chuck Schumer, leiðtoga Demókrata í öldungadeildinni. Trump hafði áður lýst fundinum sem „afar árangursríkum.“ Markmið fundarins var að leysa ágreininginn og vinna að því að opna þær alríkisstofnanir sem hafa verið lokaðar síðan á miðnætti 21. desember.

„Við erum öll á sömu blaðsíðu um að vilja opna alríkisstofnanir að nýju,“ sagði Trump við fjölmiðla. Þegar blaðamaður bað hann um að staðfesta orð sín á fundinum um að hann væri reiðubúinn að halda ríkisstofnunum lokuðum í fleiri ár, eða þar til fjárveiting til landamæramúrsins yrði samþykkt, gerði hann það.

„Ég sagði það. Ég sagði það algjörlega. Ég held ekki að lokunin muni vara svo lengi, en ég er viðbúinn því.“

Chuck Schumer sagði í kjölfar fundarins við forsetann að forsetinn virtist ekki ætla að haggast í afstöðu sinni.

„Við sögðum forsetanum að við yrðum að opna alríkisstofnanir. Hann streittist á móti. Rendar sagðist hann ætla að halda stofnunum lokuðum í mjög langan tíma. Mánuði eða jafnvel ár,“ sagði Schumer við fjölmiðla.

Nýr meirihluti demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær frumvörp sem fjármagna rekstur þeirra alríkisstofnana sem lokunin nær til en í þeim var ekki gert ráð fyrir fjármögnun til múrsins sem Trump hefur lengi talað fyrir.

Til þess að frumvörpin verði að lögum þurfa þau að fara í gegn um báðar deildir þingsins en Mitch McConnell, leiðtogi meirihluta Repúblikana í öldungadeildinni, hefur sagt að hann ætli ekki að taka útgjaldafrumvörp til umræðu nema ljóst sé að Trump forseti styðji þau. Repúblikanar eru með meirihluta í öldungadeildinni, og því nokkuð ljóst að nýsamþykkt frumvörp demókrata ná ekki fram að ganga. Því sér ekki enn fyrir endann á lokuninni, sem nú hefur varað í um tvær vikur.


Tengdar fréttir

Demókratar samþykktu að opna alríkisstofnanir

Nær öruggt er að Trump forseti neiti að skrifa undir og repúblikanar í öldungadeildinni ætla ekki að taka frumvörp fulltrúadeildarinnar til umræðu vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×