Erlent

Meintur njósnari stal peningum frá landgönguliðum og er með ferfalt ríkisfang

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Paul Whelan var handtekinn í Moskvu á föstudag.
Paul Whelan var handtekinn í Moskvu á föstudag. Vísir/EPA
Komið hefur í ljós að bandaríski maðurinn sem handtekinn var í Rússlandi fyrir meintar njósnir er með ferfalt ríkisfang. Árið 2006 var hann sakfelldur fyrir að hafa stolið um tíu þúsund dollurum úr sjóðum landgönguliða á meðan hann var staðsettur í Írak.

Paul Whelan er fyrrverandi landgönguliði úr Bandaríkjaher en var handtekinn í Rússlandi á dögunum vegna meintra njósna. Bróðir hans David segir að hann hafi horfið þegar hann var með hópi brúðkaupsgesta á hóteli í Moskvu.

Málið þykir hið undarlegasta en rússnesk yfirvöld hafa gefið litlar sem engar upplýsingar um málið. Í frétt Washington Post segir að Wheelan hafi gerst sekur um að draga sér um tíu þúsund dollara úr sjóðum landgönguliða er hann starfaði fyrir bandaríska herinn í Írak.

Sjá einnig: Meintur njósnari sigldi um eyjar Breiðafjarðar

Starfaði hann sem skrifstofustjóri á skrifstofu landgönguliða og hafði þar aðgang að sjóðum og öðrum viðkvæmum gögnum. Herréttur sakfelldi hann fyrir þjófnaðinn og var Whelan rekinn úr hernum í kjölfarið.

Í frétt Washington Post segir að Whelan hafi árum saman verið með virkan reikning á rússneska samfélagsmiðlinum VKontakte, sem kalla má hið rússneska Facebook. Whelan er sagður hafa verið mikill áhugamaður um Rússland.

Þá hefur einnig komið í ljós að Whelan er handhafi vegabréfa frá fjórum ríkjum. Auk Bandaríkjanna er hann með kanadískt, írskt og breskt vegabréf. Whelan var fæddur í Kanada auk þess sem að fjölskylda hans er frá Írlandi og Bretlandi.

Sjá einnig: Fjölskylda meints njósnara segir hann saklausan

Fjölskylduvinur Whelan segir að hann hafi sankað að sér vegabréfum að gamni sínu og hafi verið í eins konar keppni við systur sína um hver gæti öðlast fleiri vegabréf.

Í frétt Post segir Dan Hoffmann, fyrrverandi starfsmaður CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, sem var lengi vel staðsettur í Rússlandi og þekkir vel til, að yfirvöld í Rússlandi ætli sér mögulega að freista þess að skipta á Whelan og Mariu Butina, rússneskum ríkisborgara sem hefur játað að hafa gengið erinda Rússa í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Meintur njósnari sigldi um eyjar Breiðafjarðar

Íbúar í Stykkishólmi urðu heldur en ekki hissa þegar þeir sáu meintan bandarískan njósnara í haldi Rússa sýndan í umhverfi Breiðafjarðar í heimspressunni í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×