Enski boltinn

Neyðarlegt tap Leicester gegn D-deildarliðinu Newport

Anton Ingi Leifsson skrifar
Newport-menn fögnuðu vel og munu væntanlega fagna enn frekar í kvöld.
Newport-menn fögnuðu vel og munu væntanlega fagna enn frekar í kvöld. vísir/getty
D-deildarliðið Newport County gerði sér lítið fyrir og skellti Leicester, 2-1, í þriðju umferð enska bikarsins er liðin mættust á heimavelli Newport.

Claud Puel, stjóri Leicester, skildi lykilmenn eftir heima. Kasper Schmeichel og Jamie Vardy voru á meðal þeirra sem voru skildir eftir heima en liðið var hins vegar ekki reynslulaust sem mætti á Rodney Parade-leikvanginn.

Jamille Matt kom heimamönnum yfir á tíundu mínútu. Robbie Willmott skyldi vinstri bakvörð Leicester, Christian Fuchs, eftir í rykinu, gaf boltann fyrir þar sem Matt skallaði boltann í stöng og inn.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og allt þangað til er átta mínútur voru eftir. Þá jafnaði Rachid Ghezzal með þrumuskoti en Leicester hafði þjarmað að heimamönnum mínúturnar á undan.

Það liðu innan við þrjár mínútur er heimamenn fengu vít. Marc Albrighton fékk boltann í höndina, innan vítateigs og víti var dæmt. Padraig Amond steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Vel studdir af tæplega sjö þúsund stuðningsmönnum náði D-deildarliðið að komast yfir síðasta hjallann og er komið í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar en Leicester er úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×