Enski boltinn

Klopp: Það er ekkert vit í því að láta sextán ára strák byrja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ki-Jana Hoever og Jürgen Klopp eftir leik.
Ki-Jana Hoever og Jürgen Klopp eftir leik. Getty/James Baylis
Hollendingurinn Ki-Jana Hoever setti nýtt félagsmet í gærkvöldi þegar hann kom inná sem varamaður hjá Liverpool í bikarleiknum á móti Wolves.

Ki-Jana Hoever var aðeins 16 ára, 11 mánaða og 20 daga gamall og er yngsti leikmaður Liverpool í enska bikarnum frá upphafi. Aðeins tveir aðrir yngri hafa síðan spilað mótsleik fyrir Liverpool,  Jerome Sinclair og Jack Robinson.

Ki-Jana Hoever byrjaði á varamannabekknum en kom inná strax á sjöttu mínútu þegar Dejan Lovren fór meiddur af velli.





Tveir miðverðir Liverpool eru meiddir og þá var Klopp búinn að ákveða að gefa Virgil van Dijk nauðsynlega hvíld eftir mikið álag að undanförnu. Það var því ill nauðsyn að henda stráknum unga út í djúpu laugina.

Hoever var ekki að koma inn í dæmigerða stöðu fyrir ungan leikmann sem oftast byrja út á kanti eða í bakverði. Hann kom inn í stöðu miðvarðar og við hlið Fabinho sem er vanur því að spila inn á miðjunni.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði unga stráknum eftir leik þrátt fyrir að Liverpool hefði tapað 2-1.





„Það er ekkert vit í því að láta sextán ára strák byrja. Þú setur hann ekki inná heldur bíður eftir því að hann sé fullkomlega tilbúinn. Hann stóð sig samt vel,“ sagði Jürgen Klopp.

„Stundum byrja menn ferilinn sinn svona, þegar liðið þarf virkilega á þér að halda. Þá er þetta aðeins spurning um hversu góður þú ert en ekki hversu gamall þú ert,“ sagði Klopp.





Ki-Jana Hoever var ekki eini ungi leikmaðurinn sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool því það gerðu einnig þeir Rafael Camacho og Curtis Jones. Rafael Camacho er átján ára kantamaður sem spilaði sem bakvörður í gær en Curtis Jones er sautján ára miðjumaður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×