Enski boltinn

Guardiola um færri leiki hjá Liverpool: Vill frekar vera í öllum fjórum keppnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Jürgen Klopp.
Pep Guardiola og Jürgen Klopp. Getty/Clive Brunskill
Manchester City verður í eldlínunni í kvöld þegar liðið mætir Burton Albion í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins. City-liðið er enn með í öllum keppnum ólíkt Liverpool.

Liverpool datt út úr ensku bikarkeppninnar á mánudagskvöldið og hafði dottið út úr enska deildarbikarnum fyrir áramót. Lærsveinar Jürgen Klopp geta því einbeitt sér að ensku deildinni og Meistaradeildinni en það er mun meira að gera hjá Manchester City liðinu.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var spurður út í það hvort færri leikir Liverpool muni hjálpa Liverpool liðinu í baráttunni um titilinn á næstu vikum og mánuðum.





„Ég veit ekki hvort færri leikir hjálpi eitthvað Liverpool. Ég hef enga kenningu um það eftir reynslu mína af slíku,“ sagði Pep Guardiola.

„Ef allir eru heilir og enginn er meiddur þá ráðum við alveg við þetta. Vandamálið er þegar þú ert með tíu meidda menn því þá er þetta nánast ómögulegt,“ sagði Guardiola.

„Ég vil frekar vera með í öllum keppnum eins lengi og ég get. Þegar Wigan sló okkur út úr enska bikarnum í fyrra þá var ég leiður. Ég tek bikarkeppnirnar alvarlega,“ sagði Guardiola.

„Ég tek engan þátt í því sem mótherjar mínir gera. Staðreyndin er að að Jürgen [Klopp] veit nákvæmlega hvað var í gangi,“ sagði Guardiola.

„Auðvitað þarftu stóran hóp og án hæfileika getur þú ekki einu sinni unnið einn titil. Með gæðin og fjölda leikmanna sem við höfum þá er þetta möguleiki því liðið er stöðugt,“ sagði Guardiola.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×