Erlent

Hvíta húsið hvetur ríkisstofnanir til að segja upp áskrift að Washington Post og New York Times

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er gjarnan að finna á blaðsíðum New York Times og Washington Post.
Donald Trump er gjarnan að finna á blaðsíðum New York Times og Washington Post. Vísir/Getty
Hvíta húsið hefur hvatt ríkisstofnanir í Bandaríkjunum til að segja upp áskrift að bandarísku dagblöðunum New York Times og Washington Post. Blöðin hafa verið gagnrýnin á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Talsmaður Hvíta hússins segir að um sparnaðarráð að ræða.

Trump hefur í gegnum forsetatíð sína gagnrýnt blöðin tvö harðlega og gjarnan sakað þau um að framleiða falsfréttir sem miði að því að koma höggi á forsetann, þó fátt bendi til annars en að blöðin séu aðeins að veita honum og ríkisstjórn hans eðlilegt aðhald.

Í viðtalsþætti á Fox News fyrr í vikunni ýjaði Trump að því að Hvíta húsið myndi segja upp áskrift að blöðunum tveimur.

„New York Times, sem er falsfjölmiðill, við viljum það ekki einu sinni inn í Hvíta húsið lengur. Við munum líklega segja upp áskriftinni að því og Washington Post,“ sagði Trump.

Í frétt Wall Street Journal segir að unnið sé að því að senda tilmæli til ríkisstofnana um að endurnýja ekki áskriftir að blöðunum.

„Það að endurnýja ekki áskriftir allra ríkisstofnana mun verða talsverð sparnaðaraðgerð. Við erum að tala um hundruð þúsund dollara,“ er haft eftir tölvupósti frá Stephanie Grisham til Wall Street Journal.

Ekki liggur fyrir hversu margar áskriftir ríkisstofnanir Bandaríkjanna eru með að blöðunum tveimur, né hver kostnaðurinn við þær sé.

Þetta yrði þó ekki í fyrsta skipti sem forseti Bandaríkjanna myndi hætta að kaupa áskrift að fjölmiðli vegna þess að honum mislíkaði umfjöllun hans. John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna á árunum 1961-1963 sagði upp áskrift Hvíta hússins að New York Heral dagblaðinu. Áskriftin var þó endurnýjuð nokkru seinna, að því erkemur fram á vef CNN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×