Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Keflavík 3-2 | Eyjakonur lyftu sér úr fallsætinu

Einar Kárason skrifar
Keflavík tapaði með einu marki í Eyjum.
Keflavík tapaði með einu marki í Eyjum. vísir/daníel
Það var mikið undir á Hásteinsvelli þegar ÍBV tók á móti Keflavík í dag. Með sigri gátu Eyjastúlkur hoppað upp úr 8. sæti í það 5., sætið sem gestirnir áttu fyrir leik.

Leikurinn fór skemmtilega af stað. Sigríður Lára Garðarsdóttir átti fyrstu tilraun dagsins með fínu vinstri fótar skoti en Aytac Sharifova í marki Keflavíkur varði í horn. Cloé Lacasse var næst en aftur var Aytac vel vakandi og varði.

Eyjastúlkur voru hættulegri í fyrri hálfleiknum og voru nálægt því að komast yfir þegar Cloé átti frábæran sprett upp vinstra megin en vissi hreinlega ekki hvort hún ætti að skjóta eða senda boltann. Ísinn var svo loksins brotinn eftir um 25 mínútna leik. ÍBV bauð þá upp á flotta spilamennsku og eftir ótal skottilraunir í sömu sókninni var Brenna Lovera fyrst til að átta sig þegar boltinn datt fyrir fætur hennar. Brenna náði skoti af stuttu færi og boltinn í netið. ÍBV verðskuldað yfir. Aytac sá við Cloé einungis mínútum síðar og hélt gestunum inni í leiknum.

Fyrsta alvöru færi Keflavíkur kom þegar um 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Aníta Lind Daníelsdóttir átti þá gullfallega fyrirgjöf frá vinstri kanti á Sophie Groff en skotið frá Sophie ekki nægilega gott og framhjá markinu.

Næstu mínútur voru virkilega líflegar en þegar Cloé hélt hún væri búin að koma ÍBV í 2-0 þurfti hún að horfa á Kristrúnu Ýr Holm hreinsa boltann af línunni á ótrúlegan hátt. Örskömmu síðar náðu Keflvíkingar að jafna leikinn. Frábært einstaklingsframtak Sveindísar Jane Jónsdóttur skapaði það en Sveindís komst hreint ótrúlega framhjá tveimur varnarmönnum heimastúlkna þegar hún lyfti boltanum yfir þær og smeygði sér á milli. Því næst lagði hún boltann út í teig á Sophie sem skoraði með hnitmiðuðu skoti á nærstöng.

Þetta reyndist það síðasta markverða sem gerðist í fyrri hálfleiknum og liðin gengu því til búningsherbergja í stöðunni 1-1.

ÍBV hófu síðari hálfleikinn eins og þann fyrri og það leið ekki á löngu þar til þær náðu forustunni á nýjan leik. Brenna komst þá með boltann inn í teig gestanna og renndi honum út á Sigríði Láru sem skoraði af stuttu færi. Sveindís Jane, sem var spræk í þessum leik, var nálægt því að leggja upp annað jöfnunarmark en góð sending hennar frá vinstri skapaði mikla hættu inni í markteig ÍBV áður en þær náðu að hreinsa. Sveindís átti svo fína tilraun með vinstri fæti fyrir utan teig en rétt framhjá markinu.

Næsti korters kafli leiksins fer ekki í sögubækurnar fyrir fallegan fótbolta en ekki var annað hægt en að hrífast af þeim krafti og áræðni sem leikmenn beggja liða buðu uppá og fengu áhorfendur um nóg að tala. Það var ekki fyrr en þegar rétt rúmlega 10 mínútur eftir lifðu leiks að eitthvað markvert gerðist. Það reyndist vendipunktur leiksins þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir, nýkomin inn á sem varamaður í liði ÍBV, kom boltanum á Cloé sem spændi upp völlinn vinstra megin og náði góðu skoti að marki. Boltinn hafði viðkomu í Keflvíking en inn fór hann og staðan orðin 3-1.

Þá héldu flestir að leiknum væri lokið en gestirnir voru ekki á sama máli. Dröfn Einarsdóttir, sem kom inn á í lið Keflavíkur, átti skot úr teig sem Guðný Geirsdóttir, markmaður ÍBV, varði frábærlega í horn. Það reyndist þó ekki nóg en eftir hornspyrnuna barst boltinn á Sophie sem skoraði sitt annað mark í leiknum og munurinn orðinn 1 mark.

Eftir þetta reyndi lið Keflvíkinga eins og þær gátu að ná inn jöfnunarmarkinu en án árangurs. Niðurstaðan því 3-2 sigur ÍBV í frábærum fótboltaleik.

Gunnar Magnús: Stoltur af frammistöðu stelpnanna

„Þetta var jafn leikur, hörku leikur, skemmilegur leikur,” sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, eftir leik.

„Mikið fjör og mikið tekið á. Þetta í raun féll þeirra megin í dag. Við fengum færi. Þær fengu færi. Þær voru betri í færanýtingunni og að mínu mati er það það sem skilur liðin að í dag.”

Fyrir leik voru einungis 3 stig sem skildu að lið Keflavíkur í 5. sæti og liðið í botnsæti deildarinnar.

„Þetta er þéttur pakki. Það er þessi gamla fræga klisja að það er næsti leikur sem skiptir máli. Þetta eru allt hörkulið og það er bara næsti leikur. Við mætum Íslandsmeisturunum þá. Það verður skemmtilegt og spennandi. Þessi pakki fyrir neðan okkur er vissulega mjög jafn og það er stig hér og stig þar þá ertu kominn upp. Ef þú missir stig þá ertu farinn niður. Það er barátta framundan og þetta verður skemmtileg barátta.”

„Ég er stoltur af frammistöðu stelpnanna. Þær lögðu sig virkilega fram. ÍBV hefðu getað skorað annað mark en við hefðum getað skorað líka. Við fengum nokkur mjög góð færi en þær náðu að nýta sín. Þær settu 3 mörk en við bara 2,” sagði Gunnar.

Jón Ólafur: Fimm eða sex lið geta hæglega fallið

Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, var sáttur eftir leik.

„Það skiptir öllu máli að fá 3 stig. Ég var ánægður með fyrri hálfleikinn en óhress með að skora ekki fleiri mörk og geta verið aðeins afslappaðari í þessu. Svo komumst við í 3-1 og hefðum átt að geta silgt þessu betur heim en Keflavík er með frábært lið. Leikurinn varð óþarflega spennandi fyrir okkur sem stöndum í kringum þetta en stórkostleg skemmtun fyrir áhorfendur.”

ÍBV voru betri í fyrri hálfleiknum og hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk áður en Keflavík jafnaði leikinn.

„Ég hugsaði með mér ‘saga sumarsins.’ Við erum að gera vel en fáum mark í andlitið. Við bjuggum okkur vel undir seinni hálfleikinn í hálfleik en því miður misstum við aðeins dampinn síðasta korterið og úr varð hasarleikur. Það var gæða fótbolti og ömurlegur fótbolti.  Hraði, spenna og taugaveiklun. Líf og fjör eins og alltaf í Eyjum.”

„Maður hélt að við værum að fara að míga og skíta í okkur,” sagði Jón Óli spurður út í lokamínútur leiksins eftir að Eeflavík minnkaði muninn í eitt mark.

„En stelpurnar stóðu sig frábærlega. Stóðust áhlaupin og náðu að sigla þessu heim og fyrir það er maður þakklátur.”

„Það geta allir unnið alla og það eru einhver fimm eða sex lið sem geta hæglega fallið. Menn þurfa að fara að varfærni í alla leiki,” sagði Jón að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira