Enski boltinn

Rafael Benitez útskýrir brotthvarf sitt frá Newcastle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez, með son leikmannsins Jamaal Lascelles eftir lokaleik tímabilsins hjá Newcastle United.
Rafael Benitez, með son leikmannsins Jamaal Lascelles eftir lokaleik tímabilsins hjá Newcastle United. Getty/Shaun Botteril
Rafael Benitez hætti í gær sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle United þegar samningur hans rann út. Í morgun sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann fór yfir ástæður þess að hann yfirgefur félagið.

Rafael Benitez segist hafa verið tilbúinn að vera áfram hjá Newcastle og fannst hann „tilheyra“ félaginu. Vandamálið að hans mati var að félagið var ekki með sömu sýn á framtíðina og hann.

Hinn 59 ára gamli Rafael Benitez vildi fá langtímasamning en ekki bara framlengingu eins og honum var boðið.





„Það kom betur og betur í ljós að þeir sem ráða hjá félaginu voru ekki með sömu sýn og ég,“ skrifaði Rafael Benitez.

Newcastle endaði í þrettánda sæti í ensku úrvalsdeildinni á nýloknu tímabili en það var Rafael Benitez sem kom liðinu upp í úrvalsdeildina vorið 2017 eða á fyrsta heila tímabilinu eftir að hann tók við.

„Ég vildi vera áfram en ég vildi ekki skrifa undir framlengingu. Ég vildi vera hluti af langtímaverkefni,“ skrifaði Benitez í bréfi sínu til stuðningsmanna félagsins.

„Ég er mjög leiður yfir þessu en ég mun aldrei sjá eftir þeirri ákvörðun minni að koma til Tyneside. Ég er mjög stoltur af því sem við afrekuðum saman,“ skrifaði Benitez en það má allt bréfið hans hér fyrir neðan.





Rafael Benitez hefur áður stýrt liðum eins og Valencia, Liverpool og Real Madrid. Hann var ekki lengi atvinnulaus því spænski stjórinn hefur nú gert samning við kínverska félagið Dalian Yifang sem borgar honum 12 milljónir punda í árslaun.

Mikel Arteta, aðstoðarmaður Pep Guardiola hjá Manchester City, þykir líklegastur til að taka við starfi Benitez hjá Newcastle en þeir Garry Monk, David Moyes og Roberto Martinez hafa allir verið orðaðir við stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×