Erlent

Svíi handtekinn vegna sprengingarinnar í Kaupmannahöfn

Kjartan Kjartansson skrifar
Töluverðar skemmdir urðu á skrifstofum dönsku skattstofunnar þegar sprengja sprakk þar fyrir utan fyrir rúmri viku.
Töluverðar skemmdir urðu á skrifstofum dönsku skattstofunnar þegar sprengja sprakk þar fyrir utan fyrir rúmri viku. Vísir/EPA
Sænska lögreglan aðstoðaði þá dönsku við að handtaka 22 ára gamlan karlmann sem grunaður er um að hafa átt þátt í öflugri sprengingu fyrir utan skattstofu Danmerkur í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Maðurinn er nú í gæsluvarðhaldi og bíður framsals til Danmerkur.

Nils Norling, talsmaður lögreglunnar, segir að maðurinn hafi verið handtekinn í Malmö klukkan 22:30 að staðartíma í gærkvöldi. Danska ríkisútvarpið segir að maðurinn búi með foreldrum sínum í úthverfi borgarinnar.

Dönsk yfirvöld eru sögð ætla að krefjast framsals mannsins. Leggist hann gegn því þarf að rétta um framsalskröfur í Svíþjóð. Ekkert liggur fyrir um hvort að maðurinn eigi sakaferil að baki. Annar 23 ára gamall Svíi er eftirlýstur vegna sprengingarinnar sem lögreglan telur að mennirnir hafi borið ábyrgð á.

Mennirnir eru ekki taldir tengjast Danmörku og ekki er vitað hvað þeim gekk til. Eins og er hafa þeir ekki verið tengdir við aðra sprengju sem sprakk við lögreglustöð á Norðurbrú.

Tveir starfsmenn voru á skrifstofu skattstofunnar í Kaupmannahöfn þegar öflug sprengja sprakk fyrir utan á ellefta tímanum á þriðjudagskvöld í síðustu viku. Enginn slasaðist alvarlega í sprengingunni. Töluverðar skemmdir urðu á framhlið byggingarinnar.

Níu sprengjur hafa sprungið í Kaupmannahöfn síðasta hálfa árið. Málin eru óupplýst en lögreglan telur þau tengjast.


Tengdar fréttir

Sprenging við lögreglustöð í Kaupmannahöfn

Sprenging varð fyrir utan lögreglustöð í Kaupmannahöfn í nótt, aðeins nokkrum dögum eftir að sambærileg sprenging varð fyrir utan Skattstofu Danmerkur á þriðjudagskvöld. Engin slys urðu á fólki.

Birta myndskeið af tilræðismanninum í Kaupmannahöfn

Myndskeiðið sýnir tilræðismanninn við Hermodsgade í Norðurbrú leggja frá sér svartan plastpoka við lögreglustöðina en talið er að sprengjan hafi verið í pokanum. Athygli vekur að maðurinn klæddist dökklituðum vetrarklæðnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×