Mexíkósku landsliðskonurnar Stephany Mayor og Bianca Sierra leika ekki með Þór/KA næsta sumar. Þær hafa samið við Tigres Femenil í heimalandinu.
Stephany lék með Þór/KA í fjögur ár og Bianca í þrjú ár. Þær urðu Íslandsmeistarar með Þór/KA 2017.
Það tímabil var Stephany markadrottning Pepsi-deildar kvenna og valin besti leikmaður deildarinnar. Sama ár var hún einnig valin íþróttakona Þórs og íþróttakona Akureyrar.
Stephany skoraði 57 mörk í 68 leikjum í efstu deild á Íslandi. Bianca lék 49 leiki í efstu deild og skoraði tvö mörk.
Þór/KA endaði í 4. sæti Pepsi Max-deildar kvenna á síðasta tímabili.
Mexíkóarnir farnir frá Þór/KA
