Pétur Pétursson er slökkviliðsstjóri í Árnessýslu biður fólk um að vera á varðbergi gagnvart gróðureldum og grípa inn í ef það sér eld og reyna að kæfa hann í fæðingu.
Fyrir utan þau mannslíf sem gætu verið í húfi þá er afar mikið undir fjárhagslega, sérstaklega í sumarhúsabyggðinni í Grímsnesi þar sem er mikill trjágróður og eignir inni á milli sem skipta milljörðum í virði.
Brunavarnir Árnessýslu hafa undanfarið haldið fyrirlestra fyrir búnaðar- og sumarhúsafélög þar sem farið er yfir hætturnar af gróðureldum og hvernig sé best að reyna að koma í veg fyrir þá.
Pétur segir sumarhúsaeigendur afar meðvitaða um þessa hættu. Það gera sér þó ekki allir grein fyrir henni. Slökkviliðsmenn voru nýverið kallaðir út vegna gróðurelds á Nesjavöllum þar sem ferðamaður hafði skottast upp á fjall og kveikt í einnota grilli á þurrum mosa.

Þá geta gróðureldar kviknað þegar bifreiðum er ekið í grónu landslagi. Slökkviliðsmenn þurftu til dæmis einu sinni að bregðast hratt við þegar ökumaður hafði fest bíl í grónu landi en þar kviknaði eldur þegar pústið komst í snertingu við þurra sinu. Þá getur brotnað úr bremsudiskum og brotin kastast í þurran gróður en Pétur tekur fram að það sé hins vegar erfitt fyrir ökumenn að taka eftir því.
Þá rekur Pétur sögu af sumarhúsaeiganda sem ætlaði að útrýma öllu illgresi í garðinum með svokölluðum illgresisbrennara. „Það er ekki góð hugmynd í svona tíð í bústaðnum,“ segir Pétur.
Hann hvetur sumarhúsaeigendur til að vera á varðbergi og hafa garðslöngurnar klára og sinuklöppur til að geta brugðist nógu hratt við ef gróðureldur kviknar.
Pétur segir slökkviliðsmenn á Suðurlandi vana ýmsu en ekki sé hægt að segja að þeir séu rólegir yfir þeirri tíð sem er fram undan miðað við veðurspána. Í Árnessýslu eru sjö starfsstöðvar og 120 slökkviliðsmenn til taks sem eru vel tækjum búnir.