Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er manneskja ársins hjá bandaríska blaðinu Time. Greint var frá valinu klukkan 13 í dag.
Tímaritið hefur valið manneskju ársins frá árinu 1927, en sá verður fyrir valinu sem talinn er hafa haft mest áhrif á fréttir ársins, sama hvort það sé til góðs eða ills.
.@GretaThunberg is TIME's 2019 Person of the Year #TIMEPOY https://t.co/YZ7U6Up76v pic.twitter.com/SWALBfeGl6
— TIME (@TIME) December 11, 2019
Hin sextán ára Thunberg hefur vakið mikla athygli fyrir baráttu sína í loftslagsmálum, en hún hófst með skólaverkfalli hennar í Stokkhólmi síðla sumars á síðasta ári.
Með aðgerðunum - Fridays for Future - vildi hún þrýsta á stjórnvöld að grípa til harðari aðgerða þegar kemur að því að draga úr útblæstri koltvísýrings. Þegar leið á baráttu Thunberg bættust ungmenni, alls staðar að úr heiminum, við og hófu svokölluð skólaverkföll.
Á síðasta ári valdi blaðið myrta og fangelsaða blaðamenn sem manneskjur ársins 2018. Andlit nokkurra þeirra skreyttu forsíðu tímaritsins sem er gefin út í nokkrum útgáfum. Í hópi þeirra er Jamal Khashoggi, sádiarabíski blaðamaðurinn sem var myrtur í sendiráði Sáda í Tyrklandi í október.
Að neðan má sjá myndband af vef Time.