Trump valdi Bolton sem nýjan þjóðaröryggisráðgjafa sinn eftir að hann lét H.R. McMaster fara í síðasta mánuði. Bolton var meðal annars sendifulltrúi ríkisstjórnar George W. Bush við Sameinuðu þjóðirnar í síðara Íraksstríðinu og er á meðal einörðustu harðlínumanna í utanríkismálum á hægri væng bandarískra stjórnmála.
Þangað til í síðasta mánuði stýrði Bolton jafnframt Gatestone-stofnuninni, hugveitu í New York, sem hefur birt fjölda neikvæðra greina um múslima, að því er segir í frétt NBC-sjónvarpsstöðvarinnar. Á meðal fullyrðinga höfunda sem skrifa fyrir hugveituna er að hvítt fólk muni brátt hverfa í Evrópu vegna flæðis fólks frá múslimalöndum þangað.
Töluðu um Svíþjóð sem „nauðganahöfuðborg vestursins“
Á vefsíðu hugveitunnar segir að hún „uppfræði almenning um það sem meginstraumsfjölmiðlar fjalla ekki um“, þar á meðal um mannréttindi, tjáningarfrelsi og orkumál. Á meðal greina sem hún hefur birt fjallar ein um að sómalskir innflytjendur í Svíþjóð hafi gert landið að „nauðganahöfuðborg vesturlanda“.Hugveitan hefur einnig ítrekað fjallað um meint svæði í evrópskum borgum þar sem yfirvöld eigi ekki að hætta sér inn vegna ofríkis múslima. Steve Emerson sem komst í fréttirnar árið 2015 þegar hann sagði við Fox News að sjaríalög væru í gildi í ensku borginni Birmingham hefur meðal annars skrifað fyrir Gatestone.
Rússnesk nettröll og bottar eru sagðir hafa dreift greinum Gatestone ítrekað. Greinarhöfundar hennar hafa einnig komið margsinnis fram í rússneskum fjölmiðlum eins og Spútnik og RT. Þar eru þeir sagðir hafa gagnrýnt leiðtoga Evrópulanda eins og Emmanuel Macron, forseta Frakklands.

Var á móti boðuðu múslimabanni Trump
Bolton er þó sjálfur sagður hafa haldið sig við skrif um Íran og önnur utanríkismál. Hann hefur meðal annars talað fyrir því að Bandaríkin ráðist á Íran að fyrra bragði. Hann gagnrýndi einnig múslimabannið sem Trump boðaði í kosningabaráttunni í desember árið 2015.Nina Rosenwald, forseti Gatestone-stofnunarinnar, segir við NBC að Bolton hafi ekki átt neina aðild að greinum sem hugveitan birti og að stofnunin viti ekki til þess að rússnesk tröll hafi breitt út efni hennar.