Erlent

Kanye West sagði þrældóm svartra hljóma eins og „val“

Kjartan Kjartansson skrifar
Kanye West bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðarmennirnir.
Kanye West bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðarmennirnir. Vísir/AFP
Bandaríski rapparinn Kanye West heldur áfram að vekja furðu með framgöngu sinni. Þannig gaf hann í skyn að fjögurra alda þrældómur svartra í Bandaríkjunum hafi verið „val“ í sjónvarpsþætti í gær. West hefur síðan sagt að orð hans hafi verið mistúlkuð.

Það var í sjónvarpsþætti TMZ sem West lýsti hugsunum sínum um þrælahaldið. Svart fólk var flutt nauðungarflutningum frá Afríku til Bandaríkjanna á 17., 18. og 19. öld.

„Þegar maður heyrir um þrælahald í fjögur hundruð ár…í fjögur hundruð ár? Það hljómar eins og val,“ sagði rapparinn sem bætti því við að svartir Bandaríkjamenn væru fastir í viðjum hugans. Blökkumenn í Bandaríkjunum veldu sér nú að vera þrælar.

Starfsmaður TMZ svaraði West fullum hálsi í útsendingunni og fullyrti að rapparinn talaði „án hugsunar“.

„Þú hefur rétt á að trúa hverju sem þú vilt en það eru staðreyndir og raunveruleiki, raunverulegar afleiðingar af öllu sem þú varst að segja,“ sagði Van Lathan, starfsmaður TMZ við West og harmaði í hvað rapparinn hefði breyst.

Lýsti Trump sem „drengnum sínum“

West sagði síðar á Twitter að ummælin hefðu verið misskilin. Hann hafi aðeins talað um fjögur hundruð ára þrælahald vegna þess að blökkumenn mættu ekki vera andlega fangelsaðir í önnur fjögur hundruð ár, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Auðvitað veit ég að þrælarnir voru ekki hlekkjaðir og settir um borð í skip af frjálsum vilja,“ tísti hann.

West hefur vakið töluverða athygli undanfarið vegna yfirlýstrar aðdáunar hans á Donald Trump Bandaríkjaforseta. Í viðtalinu lýsti hann Trump sem „drengnum sínum“ [e. My boy] og að forsetinn væri í uppáhaldi hjá röppurum.

Framganga West undanfarið hefur jafnvel vakið upp spurningar um að hann gangi ekki heill til skógar. Hann hefur meðal annars rekið umboðsmann sinn, sagst vera með tvær plötur og heimspekirit í smíðum og bergmálað hægriöfgamenn.

Tvö ár eru liðin frá því að West var fluttur á sjúkrahús eftir tónleika sem fóru úr böndunum í Kaliforníu. Þar stöðvaði hann tónleikana eftir örfá lög og hélt sautján mínútna langa tölu þar sem hann líkti sjálfum sér meðal annars við Trump og deildi á stjörnuparið Jay-Z og Beyoncé.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.