Framlög til varnarmála aukast enn á heimsvísu á milli ára og hafa ekki verið eins há frá lokum kalda stríðsins. Þetta kemur fram í nýrri samantekt SIPRI, Stochholm International Peace Research Institute. Alls vörðu þjóðir heims meira en 176 þúsund milljörðum króna til varnarmála í fyrra.
Skerfur Bandaríkjamanna af þeirri upphæð er meira en þriðjungur eða rúmlega 62 þúsund milljarðar íslenskra króna. Það jafngildir öllum varnarframlögum næstu sjö ríkja á listanum yfir helstu hernaðarveldi heims. Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins bera alls ábyrgð á 52% allra hernaðarútgjalda.
Helsta þróun síðustu ára hefur verið aukinn hlutur Kínverja í hernaðarútgjöldum heimsins, hlutfallsleg útgjöld þeirra til varnarmála hafa tvöfaldast á einum áratug og eru nú 13% af heildinni.
Þá vekur athygli að Sádí Arabía er nú í þriðja sæti listans yfir þau ríki sem verja hlutfallslega mestu til varnarmála. Sádar skjótast framfyrir Rússa á listanum en hernaðarútgjöld Rússa drógust saman um heilan fimmtung í fyrra. Það er fyrsti samdráttur hernaðarútgjalda í Rússlandi í tvo áratugi.
Hernaðarútgjöld heimsins ekki verið hærri frá kalda stríði
Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
