Lög sem banna fólki að hylja andlit sitt á opinberum stöðum í Danmörku taka gildi í dag. Fjölmargir hafa boðað komu sína á mótmæli sem fyrirhuguð eru síðar í dag.
Frá og með deginum í dag getur sá sem klæðist búrku eða niqab í Danmörku átt hættu á að verða sektaður. Bannið nær einnig til gríma, húfa sem hylja andlit og gerviskeggs.
Sektin hljóðar upp á 1.000 danskar krónur, um 16.500 krónur. Gerist maður ítrekar brotlegur við lögin gæti sá hinn sami fengið sekt upp á tífalda þá upphæð.
Undantekningar eru við banninu, til að mynda þegar sérlega kalt er í veðri eða þá að viðkomandi er á leið á grímuball. Í slíkum tilvikum er það undir lögreglu að meta hvort að viðkomandi hafi gerst brotlegur við lög.
Yfirgnæfandi meirihluti
Yfirgnæfandi meirihluti á danska þinginu samþykkti bannið á sínum tíma, þar sem 75 þingmenn greiddu atkvæði með en þrjátíu gegn. Á síðustu árum hafa sambærileg lög verið samþykkt annars staðar í Evrópu, meðal annars Frakklandi, Austurríki og Belgíu.
Mótmælin eru skipulögð af Socialistisk Ungdomsfront og fara fram á Den Sorte Plads við Nörrebro í Kaupmannahöfn klukkan 17 að íslenskum tíma.

