Ragnar Klavan tryggði Liverpool sigur á Burnley er Liverpool jafnaði Manchester United að stigum í töflunni.
Það var jafnræði með liðunum framan af leik en bæði lið áttu sín færi til þess að komast yfir en hvorugu liðinu tókst það og því var markalaust í hálfleik.
Liverpool mætti með miklum krafti í seinni hálfleikinn og var sterkari aðilinn. Liverpool sótti mikið og komst að lokum yfir á 61.mínútu þegar Sadio Mané fékk boltann rétt fyrir utan teig, sneri á varnarmann Burnley og þrumaði boltanum í þaknetið.
Liðsmenn Burnley neituðu þó að gefast upp og sóttu stíft lokamínúturnar og var það Jóhann Berg Guðmundsson sem skoraði jöfnunarmarkið í 88. mínútu með skalla en þetta var fyrsta mark hans í deildinni í vetur.
Dramatíkin var þó ekki búin því Liverpool neitaði að gefa sigurinn upp á bátinn og skoraði Ragnar Klavan sigurmark Liverpool í uppbótartíma. Eftir sigurinn er Liverpool komið í 44 stig.
Riyad Mahrez skoraði fyrsta mark Leicester í sigri á Huddersfield á 53. mínútu áður en Islam Slimani kom refunum í 2-0 nokkrum mínútum seinna. Marc Albrighton skoraði þriðja mark Leicester síðan í uppbótartíma. Eftir leikinn er Leicester komið í 8.sæti með 30 stig.
Að lokum vann Newcastle sterkan útisigur á Stoke þar sem Ayoze Perez skoraði eina mark leiksins.
Úrslit dagsins:
Burnley 1-2 Liverpool
Leicester 3-0 Huddersfield
Stoke 0-1 Newcastle