Vísindamenn hafa lengi deilt um hvort að hringir Satúrnusar hafi myndast á sama tíma og reikistjarnan sjálf fyrir um 4,6 milljörðum ára eða hvort þeir hafi orðið til seinna, ef til vill þegar halastjörnur eða jafnvel tungl rifnuðu í sundur á braut um hana.
Smám saman kvarnast úr hringjunum þegar agnir í þeim fá rafhleðslu frá sólarljósi eða geimgeislum og segulsvið Satúrnusar beinir þeim niður í átt að lofthjúpnum. Þar gufa agnirnar upp.
James O‘Donoghue og félagar hans hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA rannsökuðu hringina með Keck-sjónaukanum á Havaí og athugunum sem Cassini-geimfarið gerði þegar það steyptist niður í lofthjúp Satúrnusar í fyrra, að sögn Washington Post.
Niðurstaða þeirra var að þyngdarkraftur og segulsvið Satúrnusar toga jafngildi sundlaugar í ólympískri stærð af efni úr hringjunum niður í lofthjúpinn á þrjátíu mínútum.
Séu þeir útreikningar réttir eru hringirnir aðeins um hundrað milljón ára gamlir og urðu til á þeim tíma þegar risaeðlur reikuðu enn um jörðina. Þeir gætu þannig verið algerlega horfnir eftir hundrað til þrjú hundruð milljón ár.
„Við erum heppin að vera til staðar til að sjá hringjakerfi Satúrnusar sem virðist vera á miðjum aldri,“ segir O‘Donoghue.
Júpíter, Úranus og Neptúnus hafa einnig hringi í kringum sig en mun þynnri og tilkomuminni en Satúrnusar. O‘Donoghue varpar fram þeirri kenningu að ef hringirnir eru í raun tímabundin fyrirbæri þá gætu hinir gas- og ísrisarnir í sólkerfinu einnig hafa skartað risastórum hringjum í fyrndinni, að því er segir í frétt Space.com.
We're seeing #Saturn's rings at just the right time. Scientists estimate that this spectacular phenomenon is no more than 100 million years old—a short time during the life of the solar system—and the rings won't last forever. Learn more: https://t.co/KWDIKAbwmm pic.twitter.com/upQ9ZlV1wY
— NASA Solar System (@NASASolarSystem) December 17, 2018