Erlent

Uppstokkun í ríkisstjórn Sádi-Arabíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu. AP/G20 Press Office
Salman konungur fyrirskipaði í gær uppstokkun í ríkisstjórn landsins. Gerði hann fyrrverandi fjármálaráðherrann Ibrahim al-Assaf að nýjum utanríkisráðherra. Salman gerði sömuleiðis fleiri breytingar á tveimur æðstu ráðum Sádi-Arabíu. Ráðin hafa umsjón með efnahagsmálum og þjóðaröryggi og stýrir Mohammed krónprins, sem sagður er raunverulegur þjóðarleiðtogi vegna veikinda konungs, þeim báðum.

Að því er kom fram í umfjöllun AP-fréttaveitunnar virðast breytingarnar til þess gerðar að treysta stöðu krónprinsins. Enda eru nýir meðlimir ráðanna sagðir nánir bandamenn hans. Engar breytingar voru gerðar á stöðu krónprinsins. Hann er því sem fyrr bæði varaforsætisráðherra og varnarmálaráðherra.

Þetta eru fyrstu stóru breytingarnar sem gerðar eru á stjórninni í Sádi-Arabíu frá morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi í Tyrklandi í haust. Mohammed prins hefur verið bendlaður við morðið, sagður annaðhvort hafa fyrirskipað það eða í það minnsta vitað af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×