Erlent

Morðinginn í Charlottesville dæmdur í lífstíðarfangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd af Heather Heyer, konunni sem lést þegar maðurinn ók bíl sínum inn í hópinn, umkringd blómum og kertum.
Mynd af Heather Heyer, konunni sem lést þegar maðurinn ók bíl sínum inn í hópinn, umkringd blómum og kertum. Vísir/EPA
Rúmlega tvítugur nýnasisti sem drap konu á fertugsaldri þegar hann ók bíl sínum inn í hóp mótmælenda í borginni Charlottesville í Bandaríkjunum í fyrra var dæmdur í lífstíðarfangelsi í gær. Hann gæti enn átt dauðadóm yfir höfði sér í máli alríkisstjórnarinnar gegn honum.

James A. Fields yngri var á meðal þátttakenda í stærstu samkomu hvítra þjóðernissinna í Bandaríkjunum um árabil sem haldin var í borginni í ágúst í fyrra. Samkoman bar yfirskriftina „Sameinum hægrið“ og beindist að nafninu til gegn því að borgaryfirvöld fjarlægðu styttu af Robert E. Lee, herforingja Suðurríkjanna.

Í brýnu sló á milli hvítu þjóðernissinnanna og fólks sem mótmælti þeim. Slógust fylkingarnar á götum úti á meðan lögreglan hafði sig lítið frammi til að stöðva átökin. Í miðri ringulreiðinni ók Fields bíl sínum niður þrönga götu og inn í hóp mótmælenda. Heather Hayer, 32 ára gömul kona, lét lífið og 35 aðrir særðust, sumir þeirra alvarlega.

Kviðdómur dæmdi Fields í alls 419 ára fangelsi fyrir glæpi sína og til að greiða tæplega hálfa milljón dollara í sektir í gær. Dómari kveður upp endanlegan dóm yfir honum í lok mars. Hann gæti mildað dóminn en samkvæmt lögum er ekki hægt að þyngja hann, að sögn Washington Post.

Alríkisstjórn Bandaríkjanna hefur einnig ákært Fields fyrir hatursglæpi. Við einu brotanna sem hann er ákærður fyrir liggur dauðarefsing. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki gefið út hvort það sækist eftir dauðadómi yfir Fields og ekki hefur verið ákveðið hvenær málið verður tekið fyrir.

Hvítir þjóðernissinnar, nýnasistar og Kú Klúx Klan-liðar voru á meðal þeirra sem komu saman í „Sameinum hægrið“ í Charlottesville. Hópurinn fór meðal annars í blysför þar sem hrópuð voru rasísk slagorð eins og „gyðingar munu ekki koma í staðinn fyrir okkur“.

Donald Trump Bandaríkjaforseti vakti mikla hneykslun og reiði þegar hann þráaðist við að fordæma hvítu þjóðernissinnanna sérstaklega og sagði á endanum að „mjög fínt fólk“ hafi verið í röðum bæði hvítu þjóðernissinnanna og mótmælenda þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×