Erlent

Bandarískir þingmenn kjósa að afturkalla stuðning við Sáda í Jemen

Kjartan Kjartansson skrifar
Bernie Sanders (f.m.) og repúblikaninn Mike Lee (t.h.) voru flutningsmenn tillögunnar sem öldungadeildin samþykkti í gær.
Bernie Sanders (f.m.) og repúblikaninn Mike Lee (t.h.) voru flutningsmenn tillögunnar sem öldungadeildin samþykkti í gær. Vísir/EPA
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti að draga til baka hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við Sáda í stríði þeirra í Jemen. Í ályktun sem þingmenn beggja flokka samþykktu kenndu þeir krónprins Sádi-Arabíu um morðið að Jamal Khashoggi, sádiarabískum blaðamanni.

Samþykktin er sögð sögulega því þetta er í fyrsta skipti sem önnur hvor deild Bandaríkjaþings samþykkir að draga bandarískt herlið til baka úr stríðsátökum á grundvelli laga sem sett voru árið 1973 og takmörkuðu vald forseta til stríðsrekstrar án heimildar þingsins. Með henni hvetur þingið Donald Trump forseta til að draga herliðið til baka fyrir utan hluta þess sem berst gegn íslömskum öfgamönnum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Nokkrir þingmenn repúblikana greiddu atkvæði með ályktuninni sem var samþykkt með 56 atkvæðum gegn 41. Ályktunin er fyrst og fremst sögð táknræn og ólíklegt að hún verði að lögum. Trump hefur lýst því yfir að hann muni beita neitunarvaldi sínu og ekki er meirihluti fyrir ályktuninni í neðri deild þingsins eins og stendur þar sem repúblikanar eru með meirihluta þar til í næsta mánuði.

Í annarri ályktun samþykktu öldungadeildarþingmennirnir samhljóða að saka Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, um morðið á Khashoggi sem var myrtur í byrjun október. Kröfðust þeir þess að Sádar drægju þá sem stóðu að morðinu til ábyrgðar.

Trump forseti og ríkisstjórn hans hafa staðið með Salman þrátt fyrir að bandaríska leyniþjónustan hafi ályktað að hann hafi að öllum líkindum skipað fyrir um morðið.

„Ef krónprinsinn væri fyrir kviðdómi væri hann sakfelldur á hálftíma að mínu mati,“ sagði Bob Corker, fráfarandi öldungadeildarþingmaður repúblikana.


Tengdar fréttir

Sömdu um vopnahlé í Jemen

Stríðandi fylkingar hafa komist að samkomulagi um vopnahlé í jemensku hafnarborginni Hudaydah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×