Erlent

Umfangsmestu óeirðir í áratug

Samúel Karl Ólason skrifar
Veggjakrot þar sem Macron er líkt við Loðvík sextánda. Sá var konungur Frakklands og missti höfuðið í fallexi árið 1793.
Veggjakrot þar sem Macron er líkt við Loðvík sextánda. Sá var konungur Frakklands og missti höfuðið í fallexi árið 1793. AP/Kamil Zihnioglu
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, íhugar nú að auka öryggisráðstafanir í París í kjölfar umfangsmikilla mótmæla vegna aukinna skatta og hækkandi kostnaðar. Óeirðirnar í gær voru þær mestu sem sést hafa í Frakklandi í áratug en þau áttu sér stað víða um landið. Minnst 133 eru slasaðir og þar af 23 lögregluþjónar og voru miklar skemmdir unnar í París.

Í óeirðunum var kveikt í bílum, rúður brotnar og var farið um verslanir með ránshendi. Lögregluþjónar skutu táragasi og vatni að fólki. Lögreglan segir eld hafa verið borin að sex byggingum, mótmælendur hafi reist 130 vegatálma og kveikt hafi verið í 112 bílum. Minnst 412 voru handteknir.

AP fréttaveitan hefur eftir Michel Delpuech, lögreglustjóra Parísar, að lögregluþjónar hafi lýst áður óséðri ofbeldishegðun. Íbúar hefðu beitt hömrum, garðyrkjutólum og grjóti gegn lögregluþjónum og öðrum.



Í tilkynningu frá embætti forseta Frakklands í dag segir að til greina komi að lýsa yfir neyðarástandi. Yfirvöld Frakklands hafa kennt anarkistum og fjar-hægri hópum um ofbeldið.

Mótmælin hafa staðið yfir af og á í um tvær vikur og hafa þrír dáið í atvikum sem tengjast þeim. Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, ætlar að funda með forsvarsmönnum mótmælanna, sem kennd eru við gulu vestin sem margir mótmælenda klæðast, en það gæti reynst erfitt þar sem um nokkurs konar grasrótarhreyfingu er að ræða sem er án formlegra leiðtoga, samkvæmt France24.



Macron hefur neitað að láta undan og draga úr sköttum á eldsneyti og segir þá nauðsynlega til að draga úr útblæstri í Frakklandi. Þá hefur hann sömuleiðis staðið vörð um skattalækkanir sínar á fyrirtæki og efnað fólk og segir lækkanirnar hafa verið nauðsynlegar til að draga úr miklu atvinnuleysi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×