Erlent

Sænskir Jafnaðarmenn auka fylgi sitt í nýrri könnun

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. Getty/Pier Marco Tacca
Sænski flokkarnir Jafnaðarmannaflokkurinn, Vinstriflokkurinn og Svíþjóðardemókratar bæta allir við sig fylgi í nýrri könnun sænsku Hagstofunnar (SCB) miðað við úrslit þingkosninganna í september. Fylgi borgaralegu flokkanna minnkar.

Munurinn milli rauðgrænu og borgaralegu blokkarinnar hefur aukist frá kosningum og er í könnuninni 5,4 prósent, samanborið við 1,1 prósent í kosningunum. Rauðgrænu flokkarnir mælast með samtals 42,9 prósent, en borgaralegu flokkarnir 37,5 prósent.

Illa hefur gengið að mynda nýja stjórn en þingforsetinn greindi frá því í síðasta mánuði að hann hugðist tilnefna Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra og formann Jafnaðarmanna, sem nýjan forsætisráðherra. Ekki liggur fyrir hvenær atkvæðagreiðslan fer fram en Löfven bað þingforsetann um helgina um lengri frest til viðræðna við aðra flokka.

Tveir borgalegu flokkanna – Miðflokkurinn og Frjálslyndir – hafa lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að samþykkja Löfven sem forsætisráðherra, gangi hann að kröfum þeirra.

Fylgi Jafnaðarmanna mælist nú 30,5 prósent, sem er 2,2 prósent meira fylgi en í kosningunum. Fylgi Svíþjóðardemókrata eykst um 0,8 prósent frá kosningum, mælist nú 18,3 prósent.

Að neðan má sjá niðurstöðu könnunar SCB (kosningaúrslit sept. 2018 er innan sviga:

Rauðgræna blokkin:

Jafnaðarmannaflokkurinn 30,5% (28,3%)

Vinstriflokkurinn 8,4% (8,0%)

Græningjar 4,0% (4,4%)

Borgaralega blokkinn:

Moderaterna 19,2% (19,8%)

Miðflokkurinn 8,6% (8,6%)

Frjálslyndir 4,3% (5,5%)

Kristilegir demókratar 5,4% (6,3%)

Svíþjóðardemókratar: 18,3% (17,5%)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×