Erlent

Fjölskylda týndu prinsessunnar áréttar að hún sé "heil á húfi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Talið er að prinsessan hafi reynt að flýja Dubai til þess að öðlast meira frjálsræði erlendis
Talið er að prinsessan hafi reynt að flýja Dubai til þess að öðlast meira frjálsræði erlendis Vísir

Prinsessan Sheikha Latifa, dóttir Mohammed bin Rashid, forsætisráðherra Sameinuðu arabíska furstadæmanna, er heil á húfi í faðmi fjölskyldu sinnar í Dúbaí, að því er segir í nýrri tilkynningu frá fjölskyldunni. Engar sannanir þess efnis hafa þó verið birtar en prinsessan reyndi að flýja frá fjölskyldu sinni fyrr á þessu ári.

Sjá einnig: Týnda prinsessan af Dúbaí hafði skipulagt flótta í sjö ár

Í nýrri heimildarmynd breska ríkisútvarpsins BBC er sagt frá flóttatilraun Latifu, sem hún skipulagði á heilum sjö árum. Ekkert hefur spurst til hennar síðan hún varð uppvís að flóttanum í mars á þessu ári.

Talið er að prinsessan hafi verið handsömuð er hún reyndi að flýja en vitni segja að yfirvöld í Dúbaí hafi sótt hana um borð í snekkju undan ströndum Indlands.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Latifu, sem faðir hennar forsætisráðherrann skrifar undir og send var út í vikunni, segir að prinsessan sé í öruggum höndum fjölskyldunnar í Dúbaí. Enn hefur þó ekki fengist staðfest með öðrum hætti að hún sé í raun heil á húfi.

„(Latifa) og fjölskylda hennar hlakka til að fagna afmæli hennar í dag, í frið og ró, og byggja upp örugga og ánægjulega framtíð handa henni,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni en prinsessan varð 33 ára gömul í gær.

Ljóst er að Latifa óttaðist hræðileg örlög, yrði hún handsömuð við flóttann. Í myndbandi sem sýnt er í heimildarmyndinni ræðir Latifa það sem hún ætti í vændum ef allt færi á versta veg. „Ef þú ert að horfa á þetta myndband þá er það ekki gott. Það þýðir að ég er annað hvort dáin eða í mjög, mjög slæmum aðstæðum,“ sagði Latifa. Myndbandið átti einungis að birta ef hún yrði handsömuð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.