Erlent

Stór jarðskjálfti skók stærstu borg Alaska

Kjartan Kjartansson skrifar
Sprungur og holur mynduðust í vegi í jarðskjálftanum stóra í Alaska.
Sprungur og holur mynduðust í vegi í jarðskjálftanum stóra í Alaska. Vísir/AP
Nokkur ótti greip um sig og flóðbylgjuviðvörun var gefin út eftir að jarðskjálfti af stærðinni sjö skók Anchorage, stærstu borg Alaska í Bandaríkjunum, og nágrenni hennar. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt í kjölfar þess stóra.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að upptök jarðskjálftans hafi verið um ellefu kílómetra norður af Anchorage á um 41 kílómetra dýpi. Hann reið yfir klukkan hálf níu að morgni á staðartíma, um hálf sex síðdegis að íslenskum tíma. Stærsti eftirskjálftinn var 5,7 að stærð.

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir Cook-vog og Kenai-skaga en hún hefur síðan verið dregin til baka. Engar fregnir hafa borist af mannskaða í skjálftahrinunni. Um tíu þúsund manns eru án rafmagns en alls búa um 400.000 manns í Anchorage og nærsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×