Erlent

Yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir af sér vegna óhóflegs ferðakostnaðar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Solheim starfaði áður sem formaður Efnahags-og framfararstofnunar Evrópu OECD og tók við starfi yfirmanns UNEP í maí 2016.
Solheim starfaði áður sem formaður Efnahags-og framfararstofnunar Evrópu OECD og tók við starfi yfirmanns UNEP í maí 2016. Getty/WPA POOL
Erik Solheim yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sagði af sér í dag eftir að endanleg endurskoðun á ferðakostnaði hans sýndi að hann hefði varið óhóflegum fjármunum í ferðakostnað.

Breska dagblaðið Guardian greindi frá því í september að Solheim hefði ferðast í 529 daga af 668 og eytt 488.518 dollurum í ferðalögin eða sem nemur rúmum sextíu milljónum íslenskra króna. Hann hafi með framferði sínu haft reglur stofnunarinnar að engu. Umfjöllunin byggði á drögum að skýrslunni en nú liggur fyrir lokaniðurstaða um ferðakostnað Solheims.

Antonio Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna staðfesti þetta í dag en uppsögnin tekur gildi strax í dag að því er fram kemur á vef Reuters.

Solheim sem er fyrrverandi umhverfisráðherra Noregs segist ávallt hafa verið staðráðinn í því að gera það sem best væri fyrir málaflokkinn og þau markmið sem umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna setti sér.

Solheim starfaði áður sem formaður Efnahags-og framfararstofnunar Evrópu OECD og tók við starfi yfirmanns UNEP í maí 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×