Erlent

Fyrrum ráðgjafa Trump-framboðsins skipað að hefja afplánun

Kjartan Kjartansson skrifar
Papadopoulos (f.m.) játaði upphaflega og lýsti iðrun. Undanfarna mánuði hefur hann hins vegar amast við Mueller-rannsókninni og dregið lögmæti hennar í efa.
Papadopoulos (f.m.) játaði upphaflega og lýsti iðrun. Undanfarna mánuði hefur hann hins vegar amast við Mueller-rannsókninni og dregið lögmæti hennar í efa. Vísir/EPA
Bandarískur alríkisdómari hefur hafnað kröfu George Papadopoulosar, fyrrverandi ráðgjafa forsetaframboðs Donalds Trump, um að fresta afplánun á fangelsisdómi sem hann hlaut fyrir að ljúga að fulltrúum alríkislögreglunnar FBI. Þarf Papadopoulos því að hefja afplánunina í dag.

Papadopoulos var ráðgjafi framboðsins í utanríkismálum. Hann var sakfelldur fyrir að hafa logið að alríkislögreglunni um samskipti sín við Rússa og hlaut tveggja vikna fangelsisdóm.

Upphaf Rússarannsóknarinnar svonefndu á meintu samráði Trump-framboðsins við útsendara stjórnvalda í Kreml má rekja til yfirlýsinga Papadopoulosar við ástralskan erindreka í London árið 2016. Þar er Papadopoulos sagður hafa gefið í skyn að hann hefði vitneskju um að Rússar hefðu komist yfir mikið magn töluvpósta Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump.

Þá átti Papadopoulos fundi með maltverskum prófessor sem er talinn hafa verið milliliður fyrir rússneskstjórnvöld. Samskipti þeirra gengu meðal annars út á að koma á fundi á milli Trump og Vladímírs Pútín, forseta Rússlands.

Saksóknarar Roberts Mueller, sérstaka rannsakandans sem stýrir Rússarannsókninni, segja að lygar Papadopoulosar hafi orðið til þess að þeir náðu ekki yfirheyra prófessorinn á meðan hann var í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×