Erlent

Lögmaður konu sem var sýknuð af guðlasti flýr land

Kjartan Kjartansson skrifar
Pakistanskir íslamistar vilja enn láta hengja Bibi.
Pakistanskir íslamistar vilja enn láta hengja Bibi. Vísir/EPA
Óttast er um öryggi Asiu Bibi, pakistanskrar konu sem var sýknuð af ákæru um guðlast eftir að hafa upphaflega verið dæmd til dauða. Lögmaður hennar er nú sagður hafa flúið land af ótta um líf sitt. Sýkna Bibi hefur leitt til blóðugra mótmæla í Pakistan.

Bibi var í átta ár á dauðadeild áður en hæstiréttur landsins sýknaði hana í síðustu viku. Bibi er kristin og hún var sökuð um að hafa lastað Múhammeð spámann múslima. Mál hennar hefur vakið mikla athygli innan og utan Pakistans.

CNN-fréttastöðin hefur eftir samstarfsmanni Saiful Malook, lögmanns Bibi, að hann hafi flúið til Evrópu til að forða lífi sínu.

Ashiq Masih, eiginmaður Bibi, hefur grátbeðið vestræn ríki eins og Bretland, Bandaríkin eða Kanada um að veita henni hæli. Hann óttast um líf Bibi í fangelsi. Fjölskylda hennar sé jafnframt í felum.

Ríkisstjórn Pakistans samdi við Tehreek-e-Labbaik, flokk íslamsta, sem hefur leitt mótmæli gegn sýknu Bibi í síðustu viku. Gegn því að mótmælunum yrði hætt féllu stjórnvöld á að láta setja Bibi í farbann og að setja sig ekki upp á móti tillögu um endurskoðun á sýknunni.

Masih segir að honum hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar hann frétti af samkomulaginu.

„Fjölskylda mín er óttaslegin, ættingjar mínir eru óttaslegnir og vinir mínir eru líka óttaslegnir,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Konan sem var sýknuð af guðlasti gæti verið sett í farbann

Til að binda enda á mótmæli íslamista ætla pakistönsk stjórnvöld að setja konu sem var sýknuð af ákæru um guðlast í farbann og mótmæla ekki endurskoðun á sýknudómi hennar. Hún átti yfir höfði sér dauðadóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×