Erlent

Ósonlagið byrjað að gróa en tekur áratugi að ná bata

Kjartan Kjartansson skrifar
Þykkt ósonlagsins yfir Suðurskautslandinu árið 2000 (t.v.) og í september á þessu ári (t.h.). Fjólublái og blái liturinn sýna hvar lagið er þynnst.
Þykkt ósonlagsins yfir Suðurskautslandinu árið 2000 (t.v.) og í september á þessu ári (t.h.). Fjólublái og blái liturinn sýna hvar lagið er þynnst. Vísir/AP
Vísindamenn áætla að stærsta gatið í ósonlagi jarðarinnar yfir Suðurskautslandinu lokist á sjöunda áratug þessarar aldar. Ósonlagið er nú tekið að gróa eftir að menn bönnuðu efni sem eyða því fyrir þrjátíu árum. Batinn gæti þó aukið á hnattræna hlýnun á suðurskautinu.

Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að gatið fyrir ofan norðurhvelið ætti að lagast á fjórða áratug aldarinnar. Ósonlagið hefur þynnst allt frá 8. áratug síðustu aldar vegna losunar manna á svonefndum klórflúorkolefnum sem meðal annars var að finna í úðabrúsum og ísskápum.

Ósonlagið ver yfirborð jarðarinnar fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar. Óttast var að með þynningu ósonlagsins væri heilsu manna og dýra stefnt í hættu. Notkun klórflúorkolefna var bönnuð með Montreal-sáttmálanum árið 1987.

„Ef ósoneyðandi efni hefðu haldið áfram að aukast hefðum við séð risastór áhrif. Við komum í veg fyrir það,“ segir Paul Newman, yfirjarðvísindamaður Goddard-geimmiðstöðvar NASA, við AP-fréttastofuna.

Þegar þynning ósonlagsins var sem verst seint á 10. áratug síðustu aldar höfðu um tíu prósent efri hluta þess eyðst. Frá árinu 2000 hefur það vaxið um eitt til þrjú prósent á áratug.

Styrkur ósons í lofthjúpi jarðar sveiflast eftir árstíðum. Þegar gatið yfir suðurpólnum var sem stærst í ár var það tæpir 25 milljónir ferkílómetrar, 16% minna en þegar það mældist stærst árið 2006.

Magnar hlýnun á suðurskautinu aðeins

Fréttirnar af ósonlaginu eru þó ekki aðeins jákvæðar. Nýlega fannst uppspretta klórflúorkolefna í austanverðri Asíu sem bendir til þess að þar séu efnin framleidd í trássi við alþjóðlegt bann.

Þá gæti minnkun gatsins í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu gert loftslagsbreytingar verri þar. Fram að þessu hefur gatið vegið aðeins upp á móti hnattrænni hlýnun þar. Ekki er ljóst hversu mikið mun bæta í hlýnunina þegar gatið lokast.

Ross Salawitch, loftslagsfræðingur við Maryland-háskóla og einn skýrsluhöfunda SÞ, segir hins vegar að það væri „ótrúlega óábyrgt“ að laga ekki gatið í ósonlaginu vegna þýðingar þess fyrir heilsu manna.


Tengdar fréttir

Óvænt og óútskýrt bakslag fyrir ósonlagið

Skammlíf klórflúorkolefni sem Montreal-sáttmálinn nær ekki yfir og breytingar á hringrás lofts í heiðhvolfinu vegna loftslagsbreytinga hafa verið nefndar sem mögulegar skýringar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×