Erlent

Áhafnarmeðlimirnir á gólfinu látnir fjúka

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Umrædd mynd sem reitti netverja til mikillar reiði á sínum tíma.
Umrædd mynd sem reitti netverja til mikillar reiði á sínum tíma.

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur sagt sex áhafnarmeðlimum sínum upp störfum. Umræddir áhafnarmeðlimir þóttust sofa á flugvallargólfi á mynd sem Ryanair sagði sviðsetta. Myndin vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir nokkrum vikum.

Myndin var birt um miðjan október en á henni mátti sjá flugþjóna- og freyjur Ryanair liggjandi á gólfinu á flugvelli í Malaga á Spáni. Áhöfnin var sögð föst á flugvellinum vegna veðurs og var Ryanair gagnrýnt fyrir að veita starfsfólki sínu ekki betri aðbúnað.

Eftir að myndin fór í dreifingu birti Ryanair myndband úr öryggismyndavélum á flugvellinum, sem renndi stoðum undir fyrri fullyrðingar félagsins þess efnis að myndin væri sviðsett.Í myndskeiðinu má sjá áhafnarmeðlimina sex standa upp úr sætum sínum og leggjast á gólfið. Eftir að kollegi þeirra hefur dregið upp síma sinn og tekið mynd af þeim á gólfinu stendur fólkið upp aftur og gengur út eða aftur til sæta sinna.

Breska ríkisútvarpið BBC hafði eftir talsmanni félagsins í dag að áhafnarmeðlimirnir hafi verið reknir fyrir vítavert misferli í starfi. Þá hafi myndin skaðað ímynd flugfélagsins verulega.

Netverjar voru margir ekki tilbúnir að fyrirgefa flugfélaginu eftir að myndbandið úr öryggismyndavélum var birt. Jim Atkinsson, sá sem fyrstur birti umrædda ljósmynd á Twitter, var fljótur að svara tísti Ryanair. Í svari sínu sagði hann augljóst að áhafnarmeðlimirnir hefðu verið strandaglópar á flugvellinum yfir nóttina og að Ryanair hafi ekki reynt að létta þeim lífið. Enn aðrir sögðu að myndbandið sýndi fram á að Ryanair hefði brugðist enn fleiri starfsmönnum sínum en upphaflega var talið.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.